7.3 C
Selfoss

Er ástæða til tilraunastarfsemi í kosningum?

Eyþór H. Ólafsson

Undanfarin 16 ár hef ég notið þeirra forréttinda að vinna með Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar. Aldrei hefur skugga borið á það samstarf og það er leitun að jafn réttsýnum og reyndum sveitarstjórnarmanni á Íslandi. Það er alveg sama á hvaða vettvangi Aldís kýs að beita sér, hún gerir það vel og af heiðarleika og víðsýni.

Forystumaður á landsvísu

Auk þess að vera bæjarstjóri í Hveragerði hefur Aldís undanfarin ár verið formaður í Sambandi sveitarfélaga á Íslandi. Litið er til hennar sem eins af helstu forystumönnum á því sviði og einnig í landsmálunum. Það er ekki vegna þess að hún sé alltaf sammála síðasta ræðumanni og verði þannig allra vinur. Þvert á móti kemur hún alltaf heiðarlega fram og segir sínar skoðanir sem oftar en ekki eru vel ígrundaðar, settar fram af mikilli þekkingu og innsýn og til þeirra er litið af flestum forystumönnum þessa lands.

Bæjarstjóri allra bæjarbúa

Hveragerðisbær hefur verið svo lánsamur að njóta forystuhæfileika Aldísar sem bæjarstjóra í 16 ár og þær raddir heyrast að nú sé komið nóg. Því vil ég mótmæla harðlega, hún á mikið eftir og ég treysti henni fullkomlega til áframhaldandi forystu fyrir bæjarfélagið. Hún er bæjarstjóri allra bæjarbúa og leggur nótt við dag til að standa sig í því hlutverki. Aldís er aðgengileg nánast hvenær sem er, hvort sem það er á bæjarskrifstofunni eða í Bónus eða annarsstaðar þar sem bæjarbúar kunna að rekast á hana á förnum vegi. Hún er alltaf tilbúin að taka spjallið, svara spurningum fólks og hlusta á skoðanir enda sýna kannanir að ánægja bæjarbúa er sú mesta á Íslandi með bæjarfélagið sitt hér í Hveragerði.

Gott og traust samstarf

Á þeim 16 árum sem við höfum starfað saman í bæjarstjórn hafa bæjarfulltrúar bæði í minni- og meirihluta komið og farið eins og gengur. Ávallt hefur Aldísi gengið vel að halda utan um hópinn og tryggja eins gott samstarf og auðið er hverju sinni. Sést það best á því að undanfarin ár hefur öll bæjarstjórnin unnið saman að fjárhagsáætlunum og mikil eindrægni og samstaða ríkt um helstu mál þótt stundum geti hvesst aðeins eins og eðlilegt er þegar fólk hefur mismunandi skoðanir.

Opið samtal við bæjarbúa

Sá háttur hefur ávallt verið hafður á samstarfi í meirihlutanum undir forystu Aldísar að bæði bæjarfulltrúar og varamenn þeirra, samtals 8 manns, hafa hist flest mánudagskvöld til að fara yfir málin og hvernig skynsamlegast er að taka ákvarðanir. Þannig hefur verið unnið saman á breiðum grundvelli og tryggt að sem flest sjónarmið heyrist í aðdraganda ákvarðana. Einnig hafa bæjarfulltrúarnir verið aðgengilegir og tilbúnir í samtal við bæjarbúa á opnum húsum hjá Sjálfstæðisfélagi Hveragerðis á laugardagsmorgnum alla vetur í fjölmörg ár. Margir hafa nýtt sér þetta og oft orðið fjörugar umræður um málin og verið hægt að svara spurningum bæjarbúa á þeim vettvangi sem víðar.

Gerum ekki óþarfar tilraunir í stjórnun bæjarfélagsins, kjósum D-listann og vinnum áfram saman!

Eyþór H. Ólafsson
Formaður bæjarráðs Hveragerðis

Nýjar fréttir