2 C
Selfoss

Engar hugmyndir um skólastarf á Eyrabakka

Sædís Ósk Harðardóttir
Sædís Ósk Harðardóttir

Skólamál skipa stóran sess í öllum bæjarfélögum. Sveitarfélagið Árborg er þar engin undantekning enda hefur menntun margþættu hlutverki að gegna fyrir einstaklinginn – og þá um leið samfélagið. Öflugt menntakerfi, þar sem allir geta sótt sér menntun við hæfi gerir fólki kleift að þroska hæfileika sína og skapa sér framtíð.

Þannig er menntun eitt mikilvægasta jöfnunar- og uppbyggingartæki samfélagsins. Um leið er menntun undirstaða þess að allir geti tekið virkan þátt í lýðræðissamfélagi. Við í Vinstri grænum lítum á það sem samfélagslegt verkefni að byggja upp öflugt menntakerfi: að skólar skuli aldrei reknir í hagnaðarskyni og að menntun verði gjaldfrjáls á öllum skólastigum.

Hér í ört vaxandi sveitarfélagi þarf að vinna markvisst að því að ná þessum markmiðum. Hraður vöxtur í sveitarfélaginu hefur gert það að verkum að uppbygging innviða hefur ekki náð að fylgja í takt við fólksfjölgun. Þess vegna er mikilvægt að bregðast við því með byggingum á skólahúsnæði í sveitarfélaginu. Samkvæmt áætlun á að taka í notkun fyrsta hluta af nýrri byggingu Stekkjaskóla næsta vetur.

Í fjárhagsáætlun Árborgar 2022-2025 sem tekin var til fyrri umræðu 1. desember 2021 og síðari umræðu 15. desember 2021 og samþykkt þar með fimm atkvæða meirihluta bæjarstjórnar: Samfylkingar, Framsóknarflokks, Miðflokks og Áfram Árborgar gegn fjórum atkvæðum Sjálfstæðismanna kemur meðal annars fram:

  • Að halda eigi áfram með næstu áfanga Stekkjaskóla.
  • Byggja á íþróttahús við Stekkjaskóla.
  • Tónlistarskóli á að rísa við Stekkjaskóla.
  • Hefja á vinnu við frístundamiðstöð og vinnu við nýjan grunnskóla á Selfossi.
  • Einnig er gert ráð fyrir nýjum leikskóla (óstaðsettur að sinni).
  • Byggja á kennslusundlaug við Sunnulækjarskóla.
  • Íþróttahús ásamt nýrri sundlaug á að líta dagsins ljós á Stokkseyri.
  • Að auki á að byggja fjölnota íþróttahús við Engjaveg.

Það er nokkuð ljóst að þessar framkvæmdir eru nauðsynlegar og mikilvægt að halda vel á þeim málum nú þegar við erum svo heppin að njóta mikillar fólksfjölgunar í Árborg.

En þegar litið er yfir þessi áform stingur eitt í augu: Sú staðreynd að hvergi í þessari fjárhagsáætlun er minnst á uppbyggingu á nýjum skóla á Eyrarbakka. Engar hugmyndir eru í gangi um frekara skólastarf á Eyrarbakka í þessari áætlun og hvergi minnst á skólahúsnæði staðarins. Og það sem meira er: Hvergi er bókað að það þurfi að byggja eða hlúa að skólabyggingu á Eyrarbakka. Hvorki laga, byggja upp, halda við. Ekki eitt einasta orð þessarar bæjarstjórnar. Hvorki í meirihluta né minnihluta.

Því er það broslegt að sjá þessa meirihluta flokka fjóra og minnihluta flokkinn Sjálfstæðisflokkinn lofa nýju skólahúsnæði á Eyrarbakka. Það eru ekki nema fjórir mánuðir síðan þessi fjárhagsáætlun var samþykkt – og þá sýndu fulltrúar þeirra enga þörf til úrbóta í skólamálum Eyrbekkinga. Um það vitnar áætlunin, og engar athugasemdir þar sem Sjálfstæðisflokknum hefði verið í lófa lagið að fá skrifaðar bókanir um efnið – hefði hugur staðið til þess.

Það er löngu ljóst að það hefði átt að vera búið að semja áætlun og framkvæma hana um byggingu nýs skólahúsnæðis á Eyrarbakka. Sú áætlun sat greinilega á hörðum hakanum. Eða var hún útsett í útjaðri sveitarfélagsins? Um það vitna fundargerðir  sveitarfélagsins – og afstaða núverandi meirihluta og minnihluta Árborgar afhjúpast.

Við í Vinstri grænum leggjum áherslu á að jafnræði ríki í sveitarfélaginu og allir sitji við sama borð. Öll börn í Árborg eiga rétt á mannsæmandi skólahúsnæði og munum við leggja okkar af mörkunum til að svo megi vera.

Sædís Ósk Harðardóttir
skipar fjórða sætið á lista Vinstri Grænna í Sveitarfélaginu Árborg.

Nýjar fréttir