-3.9 C
Selfoss

Hvað ef skógur umlyki Svf. Árborg?

Skógar brjóta niður vind og búa til skjól, eru búsvæði ótal dýra- og plöntutegunda og eru vinsælir til útivistar. Skógar geta líka aukið lífsgæði okkar til muna og þá aðallega með tilliti til skjólmyndunar (vindstyrks og hitastigs).

Veður og vindafar

Á vef Veðurstofu Íslands er vindur skilgreindur sem loft á hreyfingu. Loftþrýstingur er algengasta ástæða þess að vindur verður til, þrýstingurinn er ekki sá sami á einum stað og öðrum. Ástæður þrýstimunarins er margþættur, en vindurinn verður til þegar loft fer að streyma frá hærri þrýstingi í átt að þeim lægri. Margt tefur og truflar vindinn á þeirri leið hans. Eitt af því sem truflar vindinn á ferðalagi sínu er svokallað hrýfi jarðar, sem er mismunandi eftir lögun og gerð yfirborðs. Hrýfi er mælikvarði á áhrif núnings milli lofts og yfirborðs jarðar. Lægst er hrýfi yfir opnu hafi eða vötnum.

Óregla yfirborðs jarðar er mismikil, t.d. er hún mun meiri yfir þéttbýli en sléttum sveitatúnum og mýrum og því er hrýfið hærra í þéttbýli en á sléttu túnunum. Skógur líkt og húsaþyrpingar lyftir í raun yfirborðinu og breytir bæði vind- og rakasniði gríðarlega miðað við skóglaust land. Óregla yfirborðs hefur einnig áhrif á vind næst því og ná áhrifin venjulega upp í tvöfalda eða þrefalda hæð þess sem hrjúft yfirborðið hefur, stundum miklu lengra.

Vindhraði lækkar, hitastig hækkar

Áhrif skóga og skjólbelta innan og utan þéttbýlis er mikið fyrir staðbundið veðurfar. Aukin skógrækt á okkar skóglitla landi er einn af þeim þáttum sem getur aukið lífsgæði okkar og gert líf okkar betra. Svf. Árborg á mörg hundruð hektara af landi sem hægt er að nýta til skógræktunar sem aukið getur lífsgæði íbúa til muna. Með það í huga ættum við að taka höndum saman og rækta meiri skóg og skjólbelti innan og utan þéttbýlisins.

Ef skógur umlyki Svf. Árborg má búast við að staðbundinn vindhraði lækki, vindkæling minnki  og að staðbundið hitastig myndi þar með hækka. Og getur þar munað allt að 2°C á hitastigi innan og utan skógar. Ræktum meiri skóg í Svf. Árborg!

 

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og formaður bæjarráðs. Skipar 1. sæti á framboðslista M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Árborg

Ari Már Ólafsson, húsasmíðameistari og nefndarfulltrúi í skipulags- og byggingarnefnd. skipar 2. sæti á framboðslista M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Árborg

Nýjar fréttir