8.9 C
Selfoss

Menning er lífsgæði

Blómstrandi menningarlíf er fyrir marga hreinlega spurning um lífsgæði. Síðastliðin tvö ár þar sem samkomutakmarkanir hafa sett hömlur á menningarlíf höfum við svo sannarlega fundið fyrir því hversu mikilvæg menningin er fyrir okkur. Við vorum farin að þrá að koma saman og hlusta á góða tónlist, heyra gamansögur og grín eða bara að hittast og eiga stund saman.

Í Rangárþingi eystra er blómlegt og fjölbreytt menningarlíf, hér eru starfandi kórar, hljómsveitir leikfélög, listamenn, rithöfundar og ýmis félög. Hér eru haldnar hátíðir, s.s. djass undir fjöllunum, kjötsúpuhátíð, fiðlufjör, ljósahátíð og ekki má gleyma þorrablótunum sem hafa alltaf átt stóran sess í menningarlífi íbúa. 17. júní er haldinn hátíðlegur víðs vegar í sveitarfélaginu og svo mætti lengi telja. Einnig er gaman að sjá að einkaaðilar bjóða upp á menningarviðburði af ýmsum toga í sveitarfélaginu okkar.

Rangárþing eystra hefur styrkt menningarlífið í sveitarfélaginu í gegnum tíðina með því að bjóða fram húsnæði til æfinga, sýninga og tónleikahalds endurgjaldslaust en hefur einnig styrkt menningarlífið með beinum styrkjum. Í apríl 2019 var svo menningarsjóður Rangárþings eystra stofnaður með það að markmiði að efla og styrkja menningarlífið í sveitarfélaginu. Menningarnefnd sveitarfélagsins úthlutar úr sjóðnum tvisvar á ári og hefur verið mjög skemmtilegt að sjá hversu margir sækja um styrki til sjóðsins og einnig hversu fjölbreytt verkefnin eru og er því ljóst að þörf er á auknu fjármagni til sjóðsins.

Framboð Framsóknarmanna og annarra framfarasinna vill halda áfram að styðja við og styrkja öflugt menningarlíf alls staðar í sveitarfélaginu. Við munum m.a. leggja áherslu á barnamenningu í sveitarfélaginu og stuðla að fjölbreyttu framboði af menningarstarfi í frístundarstarfi barna og unglinga.

Á næsta kjörtímabili verður opnuð sýning um Njálurefillinn okkar sem mun verða mikið aðdráttarafl. Einnig er stefnt að því að við fáum að sjá afrakstur vinnunar við að fá afsteypu af Afrekshuga eftir Nínu Sæmundsson hingað til okkar.

Nú þegar bjartari tímar eru framundan er von mín að menningarlífið í Rangárþingi eystra fái að blómstra enn frekar. Viðburðum í sveitarfélaginu fari fjölgandi og hvet ég alla til að taka þátt og nýta sér það sem í boði er.

Guri Hilstad Ólason
Sveitarstjórnarfulltrúi í Rangárþingi eystra
Varaformaður menningarnefndar Rangárþings eystra
Frambjóðandi B-lista Framsóknarmanna og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra

Nýjar fréttir