11.1 C
Selfoss

Hver er þessi Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknar í Árborg?

Arnar Freyr Ólafsson.

Þessi spurning hefur oft borið á góma undanfarna daga og því finnst mér góður bragur á því að svara henni hér í stuttri grein. Ég er fæddur í Þorlákshöfn og er sonur hjónanna Ólafs Þ. Guðmundssonar á Stað og Hrafnhildar Guðmundsdóttur sundkonu. Konan mín heitir Helga Kristín Böðvarsdóttir saman eigum við þrjá syni, Hrafn (f. 2001), Böðvar (f. 2004) og Arnar Helga (f. 2007). Við höfum búið á Hvammi á Eyrarbakka frá árinu 2001.  Ég á að baki langan og farsælan feril í landsliði Íslands í sundi. Þegar ég var 18 ára gamall þá fluttist ég til San Jose í Kaliforníu og lauk þar framhaldsskóla árið 1993 og að því loknu lá leiðin til Alabama háskóla þar sem ég lauk háskólaprófi í alþjóðafjármálafræði með útskrift árið 1998. Í kjölfarið starfaði ég í bankakerfinu sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum og eignastýringu. Í hruninu ákvað ég að skipta um starfsvettvang og réði mig til fyrirtækja í erfiðum rekstri. Sérhæfing mín fólst í viðsnúningi á rekstri og vann ég við slík verkefni þar til ársins 2012 eða allt þar til ákvörðun var tekin um að stofna eigin fyrirtækjarekstur. Við hjónin höfum rekið fyrirtæki í ferðaþjónustu frá árinu 2011. Covid faraldurinn hefur tekið verulega á ferðaþjónustufyrirtækin síðustu tvö ár og nýverið ákváðum við hjónin að selja hluta af rekstrinum og minnka umsvifin vegna þess. Ég er keppnismaður að eðlisfari og því er einstakt að fá tækifæri til að bjóða fram krafta mína fyrir Framsókn í Árborg. Ég hlakka til að starfa í þágu samfélagsins og í samvinnu með frábæru fólki munum við vinna fyrir þig kæri lesandi og halda áfram að fjárfesta í fólkinu okkar með skynsemi og lausnamiðuðu hugarfari að leiðarljósi. Hlakka til að taka samtalið við ykkur ágætu íbúar og heyra hvað á ykkur brennur. 

Arnar FreyrÓlafsson
Oddviti Framsóknar í Árborg

Nýjar fréttir