8.9 C
Selfoss

Gerum gott sveitarfélag enn betra

Helgi Sigurður Haraldsson.

Framundan er prófkjör Framsóknarflokksins í Árborg fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.  Ég sækist eftir að leiða lista flokksins og óska eftir stuðningi í 1. sæti listans.

Ég hef verið bæjarfulltrúi sl. 12 ár og þar af í meirihlutasamstarfi fjögurra framboða á núverandi kjörtímabili og á þeim tíma verið forseti bæjarstjórnar.   Mörgum finnst kannski að nóg sé komið og tími kominn til að hætta.  En á þessum tíma hef ég öðlast mikla reynslu og sérstaklega á núverandi kjörtímabili hef ég sett mig enn betur inní málefni sveitarfélagsins til að móta framtíðarsýn og áætlanir þess.  Mikil uppbygging hefur átt sér stað á skömmum tíma til að bregðast við gríðarlegri fólksfjölgun og sér ekki fyrir endann á henni.  Ég sækist eftir að fá stuðning til  að halda áfram og klára mörg góð verkefni sem byrjað hefur verið á, og búa til enn betri framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.

Það er mikil áskorun að stýra sveitarfélagi í svona gríðarlegum vexti og bregðast við nýjum áskorunum á hverjum degi.  Það er líka kostnaðarsamt og ljóst að tímabundið hefur þurft að auka lántökur og langtímaskuldir til þess að halda uppi þjónustustigi við íbúana.  En allar áætlanir sýna, að á komandi árum munu fjármálin leita jafnvægis og reksturinn verði sjálfbærari eftir mikla uppbyggingu á svo skömmum tíma og möguleikar á að lækka álögur á íbúa þess.

Skipulag til framtíðar

Lykilatriðin til framtíðar er að gera 5-10 ára plan varðandi uppbyggingu innviða, hefja strax undibúning og vera með aðgerða-plan tilbúið tímanlega. Bjóða verkefnin út og gefa sem lengstan byggingar- og framkvæmdatíma, þannig að bestu verðin fáist. Dýrast er að þurfa að gera allt í einu,  á mjög skömmum tíma.  Stöðugt þarf að leita að nýjum virkjanasvæðum fyrir kalt og heitt vatn, skipuleggja framtíðar byggingaland og þróun byggðar, uppbyggingu atvinnusvæða og leita leiða til nýrra atvinnutækifæra og nýsköpunar.

Sveitarfélagið er fjölkjarna sveitarfélag, samsett úr þremur þéttbýliskjörnum og dreifbýli þar á milli og aldrei má gleyma að við erum eitt sveitarfélag sem býður uppá fjölbreytta búsetumöguleika og öll uppbygging þarf að miðast við að þjónum öllum íbúum Sveitarfélagsins Árborgar.

Helgi Sigurður Haraldsson,
frambjóðandi í prófkjöri Framsóknarflokksins í Árborg.

Nýjar fréttir