8.9 C
Selfoss

Lambalæri með hvítlauksmarineringu

Vinsælast

Matgæðingur vikunnar er Gunnar Hlíðdal Gunnarsson. Ég þakka Guðjónu Björk kærlega fyrir þessa skemmtilegu áskorun. Ég hef mjög gaman af eldamennsku en hef samt sem áður ekki gefið mér mikinn tíma til að elda eins mikið og ég gerði hér áður fyrr. Ég ætla að láta fylgja með uppskrift að lambalæri með ómótstæðilegri rjómasveppapiparsósu ásamt sætum kartöflum og fersku salati. Ég elda svona læri reglulega á mínu heimili og það klikkar aldrei. Þetta er hugsað fyrir 6-8 manns.

Lambalæri með hvítlauksmarineringu

1 lambalæri

3 hvítlaukgeirar

1 msk. Best á lambið

1 dl olía

2 msk. sojasósa

½ til 3/4 dl balsamólífuolía frá Himneskri hollustu (sítrónuólífuolían frá þeim er líka mjög góð)

Salt eftir smekk

 

Blandið olíunni og sojasósunni saman. Merjið hvítlaukinn og bætið út í. Setjið að lokum Best á lambið saman við. Smyrjið þessu yfir lærið og þekið lærið vel. Stráið smá Best á lambið yfir kryddlöginn.

Stillið ofninn á 160-170 gráður og eldið lærið í 2-3 tíma eða þar til það er fulleldað. (Fer dálítið eftir smekk hversu mikið fólk vill steikja lærið)

 

Rjómapiparsveppasósa

1 box saxaðir sveppir

½ ltr. rjómi

2-3 msk. sojasósa

Fínt malaður svartur pipar

50-100 gr. smjör

Smjör er brætt í potti og skornir sveppirnir eru settir úti ásamt sojasósu og svörtum pipar. Sveppirnir eru látnir bakast í þessari dýrindis blöndu og látnir drekka í sig vökvann. Þegar þetta er búið að malla í ca. 10 mínútur þá er rjómanum bætt við. Að lokum er smávegis af dökkum sósujafnara bætt við til að þykkja sósuna.

Sætar kartöflur í ofni

1-2 sætar kartöflur

Salt

Kaldpressuð extra virgin ólífuolía

Sætar kartöflur skornar í bita og settar í fat. Ólífuolía sett yfir ásamt salti og sett inn í ofn við 170 gráður í 30-40 mínútur. Þetta er svo borið fram með fersku salati eftir smekk hvers og eins.

 

Ferskt salat

Ein lúka klettasalat

Tvær lúkur blandað lambhagasalat

Fjórir tómatar skornir í litla báta

Hálf agúrka lystuglega skorin

Fetaostur fyrir þá sem vilja.

Ég er ekki mikill eftirréttagerðarmaður og legg því til að einn sterkur svartur kaffibolli sé fullkomið eftir þessa dásemdarmáltið ásamt lúku af Nóakroppi með.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir