As We Grow vinsælt meðal ferðamanna á Suðurlandi

Mynd: Aðsend.
Mynd: Aðsend.

Íslenska fatahönnunarmerkið As We Grow hefur verið að vaxa jafnt og þétt erlendis síðastliðin ár en hvergi jafn hratt og í Japan. Þar í landi er fyrirtækið er nú komið í 20 verslanir og stefnir í áframhaldandi vöxt.

Þegar vörumerkið fór fyrst á markað þar fyrir rúmum tveimur árum var það valið eitt af áhugaverðustu barnafatamerkjunum þar í landi. Í vetur bættist svo við sala á fullorðinsvörum As We Grow í Japan.

Gréta Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri og annar eigenda As We Grow, segir Japani vera mjög kröfuharða kaupendur og leggja ofuráherslu á gæði og fallega hönnun, en einnig að vörurnar séu umhverfisvænar og úr fyrsta flokks náttúrulegu hráefni, alpaca ull, lífrænni bómull og hör. Því sé það einstaklega gaman að vörurnar séu að slá í gegn þar. „Það sem þeir hafa fyrst og fremst fallið fyrir hjá okkur er tímalaus og stílhrein hönnun en það skiptir þá líka miklu máli að vörurnar okkar séu umhverfisvænar og „fair trade“, það er að hugsað sé vel um kaup og kjör starfsfólksins sem kemur að því að framleiða vörurnar og er þetta því gríðarleg viðurkenning fyrir okkar vörumerki,“ segir Gréta. As We Grow hlaut einmitt Hönnunarverðlaun Íslands 2016 fyrir að byggja á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar.

Vörur As We Grow fást í dag í um 80 verslunum í 10 löndum, þar af um 10 verslunum í Reykjavík, á heimasíðu fyrirtækisins www.aswegrow.is og í hönnunarbúð Stracta Hótelsins á Hellu á Suðurlandi, þar sem vörumerkið hefur slegið í gegn meðal erlendra ferðamanna sem og íbúa Suðurlands.