Málefni útivistar í Árborg

Upphaf göngustígs mefram Eyrarbakkavegi, hér sést að hjólafólk hefur ekkert val annað en að hjóla á akbrautinni.

Rétt fyrir kosningar s.l. vor tók meirihluti bæjarstjórnar sig til og lét hefja vinnu við göngustíg við hlið Eyrarbakkavegs frá Selfossi og niður að afleggjaranum að Kaldaðanesi. Reisnin yfir þessu verkefni var ekki mjög mikil þar sem þessi göngustígur hefði átt að vera kominn a.m.k. fyrir 10 árum, þar sem Sandvíkurhverfið hefur verið hluti af Árborg frá því árið 1998 en þá sameinuðust sveitarfélögin Selfoss-Eyrarbakki- Stokkseyri- Sandvíkurhreppur. Varðandi reisn þá taldi meirihlutinn sér ekki fært að hefja þessa framkvæmd nema með peningastyrk frá ríkinu. Stórvirk tæki hófu framkvæmd og komu fyrir undirstöðu stígsins. Þegar því lauk hefur ekkert spurst til framkvæmdaaðila. Stígurinn er þarna engum til gagns, ekki hefur enn verið auðvelduð aðkoma að honum, háir götukantar og gróft lag er aðalástæða þess.

Ungir ofurhugar keyra jú stundum á mölinni, bæði langs- og þversum.

Áfram ganga göngu- og hjólavegfarendur um Eyrabakkaveginn í bland við brjálæðislega umferð á þeim vegi. Hröð umferð og engar axlir á veginum til að forðast að vera inn í stórhættulegri umferðinni.

Það er mjög erfitt að skilja það að ekki skuli mögulegt að gera þetta betur og fljótar.

Kristján Einarsson Íbúi í Sandvíkurhverfi og áhugamaður um göngustíga.

Ef við látum hugan reika aðeins aftur í tímann þá vafðist það ekki fyrir ráðamönnum Árborgar þegar ofurbjartsýnum athafnamönnum datt í huga að skipuleggja a.m.k. 200 húsa búgarðabyggð í Kaldaðaneslandi, í landi sem tilheyrði Sandvíkurhreppi fyrir sameiningu. Bæjarsjóður lét leggja vegi um allt hverfið, hita- og kaldavatnslagnir og brunahanar spruttu upp eins og tré. Núna mörgum árum síðar eru milli 40 og 45 hús í þessu vegakerfi bæjarins. Dálagleg fjárfesting það.

Eins var þessu farið þegar ofurhugar og svokallaðir fjármálamenn hófu skipulag Byggðarhornslandsins fyrir búgarðabyggð. Vegir voru lagðir þvers og kruss, vatnslagnir lagðar og brunahanar standa þarna einir og yfirgefnir. Tvö býli hafa verið lengstum í þessu 40 – 50 íbúða landi.

Um daginn átti ég leið um byggingalandið neðan við Eyrabakkaveginn, landið sem er rétt við flugvöllinn. Mikil uppbygging þar og verið að nema enn meira land undir hverskonar hús. Vegir eru lagðir, lagnir lagðar, brunahanar settir niður og GÖNGUSTÍGAR lagðir þrátt fyrir að ekki hafi enn verið reyst bygging á svæðinu.

Það vefst ekki fyrir ráðamönnum að setja aura í þetta verkefni, ekki líða nema nokkrar vikur frá hugmyndinni um íbúabyggð þangað til göngustígur er lagður.

Varðandi göngustíginn meðfram Eyrabakkavegi sem mun þjóna fjölda manns tekur 20 ár að láta leggja hann og það með aðkomu ríkisins.

Ekki vantaði að það var sagt frá þessu mikla framkvæmdaverki í blöðum rétt fyrir kosningar og án efa vænst þess að íbúar settu kross sinn við „ofurhugana“. Það fór þó ekki eins og lagt var upp með.

Ég skora á núverandi ráðamenn að láta nú hendur standa fram úr ermum og klára göngustíginn strax. Öll tæki eru til í nútímanum að ljúka þessu með reisn og það án tafar. Það býr fjöldi fólks í Sandvíkurhverfi sem myndi mjóta góðs af þessum göngustíg eins og fólk á Selfossi notar sína göngustíga ásamt öllu útivistafólki sem á hverjum degi hópast Votmúlahring hlaupandi eða hjólandi en þessi hringur er mjög vinsæll útivistahringur.