0.3 C
Selfoss

Ábyrgur rekstur skilar ávinningi til íbúa

Vinsælast

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2026, ásamt þriggja ára áætlun, var samþykkt að lokinni seinni umræðu í bæjarstjórn, miðvikudaginn 3. Desember sl.. Útsvarsprósentan helst óbreytt í 14,97% og fasteignagjöld eru lækkuð.

Breytingar urðu á áætluninni milli umræðna þar sem einstaka málaflokkar ýmist hækkuðu eða lækkuðu en stærsta breytingin var tengd launakostnaði, kostnaðarþátttöku í byggðasamlögum, aukningu á tekjum m.a. úr Jöfnunarsjóði og breytingum í öðrum rekstrarkostnaði sem lækkar aðeins milli umræðna.

Heildartekjur hækka á móti kostnaði og rekstrarniðurstaða samstæðunnar er jákvæð um 150,3 milljónir árið 2026 samkvæmt áætluninni.

“Það er ánægjulegt að fjárhagsáætlun sé samþykkt með jákvæðri rekstrarniðurstöðu og að rekstur sveitarfélagsins sé að styrkjast næstu árin. Áætlunin endurspeglar stefnu bæjarstjórnar um hvernig ábyrgur rekstur getur skilað sér til lækkunar gjalda og álaga. Á árinu 2026 skilar það sér m.a. í lækkun fasteignagjalda, hækkun frístundastyrks um 25% og auknu fjármagni í forvarnir, farsæld, viðhald og fjárfestingar mikilvægra innviða.

Mikilvægt er að halda stefnu og leita áfram leiða til að rekstur sveitarfélagsins sé hagkvæmur og með því skapa svigrúm til lækkunar álaga á íbúa. Vil koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa komið að vinnu við áætlunina. Við gleðjumst yfir betri stöðu en höldum skýrri sýn á verkefnin framundan” segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar af tilefni.

Lykilpunktar

  • Útsvarsprósentan verður 14,97% til samræmis við flest önnur sveitarfélög
  • Jákvæð rekstrarniðurstaða 150,3 milljónir í A- og B-hluta
  • Veltufé frá rekstri er 2,3 milljarður
  • Fasteignaskattur, vatns- og fráveitugjald lækkar fyrir íbúða- og atvinnuhúsnæði
  • Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka í fyrir sérbýli en hækka fyrir fjölbýli
  • Skuldaviðmið Árborgar er áætlað 118,1% í árslok 2026
  • Hóflegar gjaldskrárhækkanir og námsgjald í leikskólum hækkar ekki milli ára
  • Frístundastyrkur hækkar um 25%
  • Aukið fjármagn í forvarnir og farsæld allra aldurshópa
  • Aukinn opnunartími sundlauga Árborgar
  • Framkvæmdir hefjast við 3. áfanga Stekkjaskóla, kennslusundlaug við Sundhöll Selfoss og viðbyggingu við leikskólana Jötunheima og Árbæ
  • Viðhald gatna- og göngustíga, hreinsistöðin klárast og orkuöflun Selfossveitna

Í samþykktri fjárhagsáætlun 2026 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A- og B hluta, verði jákvæð sem nemur 150,3 milljónum og að EBITDA verði jákvæð um 2.797 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað 2.311 milljónir í samstæðu sveitarfélagsins, framlegðarhlutfallið verði 12,2 prósent og skuldaviðmiðið í 118,1 prósent.

Rekstrarniðurstaða Árborgar fyrir A- og B-hluta
Skuldaviðmið og –hlutfall Sveitarfélagsins Árborgar frá 2020 og út áætlunartímabilið

Nánari útskýring á fasteignagjöldum, útsvari og gjaldskrárhækkunum

Útsvar fyrir árið 2026 verður óbreytt í 14,97 prósent.

Almennar gjaldskrárhækkanir verða um 3,5 prósent sem er í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar.

Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, fráveitu- og vatnsgjalda og sorphirðugjalda. Eftirfarandi breytingar taka gildi við álagningu árið 2026

  • Fasteignaskattur á íbúðahúsnæði (A) lækkar úr 0,48% í 0,44%.
  • Vatnsgjald á íbúðahúsnæði (A) lækkar úr 0,102% í 0,0806%.
  • Fráveitugjald á íbúðahúsnæði (A) lækkar úr 0,102% í 0,0806%.
  • Fasteignaskattur á opinberar byggingar (B) helst óbreyttur.
  • Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði (C) lækkar úr 1,65% í 1,63%.
  • Vatnsgjald á atvinnuhúsnæði (B og C) lækkar úr 0,172% í 0,162%.
  • Fráveitugjald á atvinnuhúsnæði (B og C) lækkar úr 0,18% í 0,17%.
  • Lóðarleiga helst óbreytt 1%.

Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka í öllum flokkum hjá sérbýlum en hækka fyrir fjölbýlishús. Góð flokkun íbúa er að skila sveitarfélaginu auknum tekjum úr úrvinnslusjóði sem um leið hefur jákvæð áhrif á gjöldin.

Með fjárhagsáætlun 2026 var einnig samþykkt þriggja ára áætlun áranna 2027, 2028 og 2029.

Nýjar fréttir