Hlýlegur jólaandi mun svífa yfir Eyrarbakka þann 14. desember n.k. kl. 20:00 þegar tónlistarkonan Marína Ósk blæs til tónleika í Gömlu kartöflugeymslunni við Búðarstíg. Þeir Tómas Jónsson hljómborðsleikari og Leifur Gunnarsson kontrabassaleikari verða henni til halds og trausts.Uppselt er á tónleikana og tilhlökkun mikil.
Söngkonan og lagasmiðurinn Marína Ósk flutti á Eyrarbakka í lok árs 2024. Hún er fædd og uppalin í Bítlabænum Keflavík og fékk tónlistina í vöggugjöf frá foreldrum sínum. Marína er með meistaragráðu í Jazztónlist og var fyrr á árinu valin Jazzsöngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Hún einskorðar sig þó ekki við jazz og er t.a.m. önnur aðalsöngvara ábreiðuhljómsveitarinnar The Bookstore Band, sem leikur í Húsi Máls og Menningar í Reykjavík á hverju kvöldi fyrir fullu húsi. Marína semur einnig sína eigin tónlist og gaf út sína þriðju sólóplötu, „Oh, Little Heart“ í apríl 2025.
Á tónleikunum 14. desember verða flutt ástkær jólalög sem allir þekkja og þau klædd í gamaldags jazzbúning í anda Bing Crosby, Ellý og Villa og Ellu Fitzgerald. Munu áhorfendur upplifa góðan skammt af jólaskapi og huggulegheitum. Sem fyrr segir verða tónleikarnir haldnir í Gömlu kartföflugeymslunni á Eyrarbakka og seldust miðar upp.
Tveir af eigendum kartöflugeymslunnar eru hjónin Agnes Ósk Snorradóttir og Björgvin Guðmundsson. Samstarf hjónanna og Marínu Óskar er nýtt af nálinni. „Þau Agnes og Björgvin mættu á tónleika hjá mér í nóvember og buðu mér í framhaldinu að skoða Gömlu kartöflugeymsluna. Við vorum öll sammála um að þetta einstaka rými væri algerlega fullkomið fyrir jólajazz!“ segir Marína Ósk.
Saga Gömlu kartöflugeymslunnar nær aftur til miðrar síðustu aldar þegar afi Björgvins fékk efni frá bandaríska hernum í Keflavík. Geymslan var reist sumarið 1951 og þannig varð skotfæra- og sprengjugeymsla að kartöflugeymslu. Kartöflugeymslan er undir torfu og upplifa gestir gjarnan að stigið sé inn í annan heim við komuna þangað. „Gamaldags jazz og jólatónlist er að mínu mati hin fullkomna blanda af hjartahlýju og góðum minningum.“ segir Marína Ósk og bætir við: „Jazzinn sem dunaði þegar kartöflugeymslan var byggð skartaði skærustu stjörnum jazzsögunnar og ég er ekki frá því að ómur þess tíma sé hreinlega innbyggður í veggi geymslunnar!“

