6.1 C
Selfoss

Hin ómissandi jólastjörnuspá Spássíu 2025

Vinsælast

Spássía, góðvinur Dagskrárinnar, mætir að sjálfsögðu aftur með árlegu jólastjörnuspána sína og biður Sunnlendinga nær og fjær að gera ykkar besta til að fara inn í hátíðirnar með gleði, ró og hlýju í hjartanu. Spássía sendir ykkur öllum hlýjar jóla- og nýárskveðjur og vonar að spádómurinn fylgi ykkur inn í hátíðirnar eins og ilmurinn af upphituðu jólaglöggi.

Bogmaðurinn – 23. nóvember–22. desember

Kæri bogmaður. Þú ert eins og jólaseremónía á tveimur fótum og ferð inn í desember með meiri orku en ætti að vera leyfileg í myrkrinu. Þú ert sá sem hendir í alls konar jólabras, pakkaleiki og uppákomur án þess að spyrja neinn og fólk fylgir þér í blindni, því þú ert bara svo góður í þessu. Þú munt njóta þess að skemmta öðrum en mundu að það er líka í lagi að eiga rólegan morgun með vel smurðu laufabrauði og kertaljósi. Jólin þurfa ekki alltaf að vera með látum. Stundum er nóg að horfa á snjóinn falla og anda djúpt.

Steingeitin – 23. desember–20. janúar

Kæra steingeit. Þú ert burðarásinn í öllum jólaundirbúningi og enginn kann betur en þú að halda haus þegar allt fer til fjandans. Þú ein sétil þess að allt gangi smurt fyrir sig, án þess þó að þurfa að vera í forgrunninum, þú ert baktjaldavörðurinn sem sér til þess að grípa hina þegar eitthvað bjátar á. En að þessu sinni er gott að muna að það má alveg leyfa hinum að reyna sig, hlutirnir gerast alveg þó þú sért ekki á vakt. Þú mátt alveg slaka á, sitja aðeins lengur með heitan drykk og leyfa öðrum að taka til. Eftir áramót verður nóg af verkefnum, en jólin eiga að vera mjúk.

Vatnsberinn 20. janúar–18. febrúar

Kæri vatnsberi. Þú hefur einstakt lag á að gera jólin öðruvísi og skemmtileg. Þú finnur upp á nýjum hefðum, nýjum mat, nýjum leiðum til að skreyta og fólk er alltaf jafn spennt að sjá hverju þú tekur upp á hver jól. Þú munt njóta þess að skapa með fólkinu þínu og sjá jólaljósið endurkastast í augum þeirra sem treysta á þína sköpunargleði. Mundu samt að opna dyrnar fyrir öðrum í ferlinu. Þú þarft ekki að finna upp öll jólin sjálfur. Fólkið þitt vill líka leggja sitt af mörkum.

Fiskarnir 19. febrúar–20. mars

Kæri fiskur. Þú ert eins og jólalag á ljúfu hljóðfæri, fullur af hlýju, þolinmæði og fallegum smáatriðum. Þú hefur líklega föndrað eitthvað fallegt, bakað meira en þú ætlaðir þér og skreytt heimilið með hlýju og músastigum. Það gleður aðra en Spássía minnir þig á að þú mátt líka slaka. Það er ekki þín skylda að vera jólasál allra. Taktu þér smá stund, sestu í mjúkan stól, horfðu á logandi kerti og leyfðu öllum öðrum að klára hitt og þetta á meðan þú bara andar aðeins.

Hrúturinn 21. mars–19. apríl

Kæri hrútur. Þú ræsir jólin af stað af meiri krafti en flestir ná að fylgja. Þú ert oft sá fyrsti til að kaupa tré, setja upp seríur og draga aðra með þér í jólagleðina. Þú gerir hlutina hratt og af eldmóði og það er ótrúlega heillandi. En í ár er gott að staldra aðeins við áður en þú hleypur áfram í næsta verkefni. Þú mátt alveg vera áhorfandi stundarinnar og njóta þess sem aðrir hafa útbúið. Ekki klára þig alveg við að aðstoða og gera, njóttu heldur kakóbollans. 

Nautið 20. apríl–20. maí

Kæra naut. Þú kannt best allra að skapa ró og notalegt andrúmsloft. Þú veist nákvæmlega hvar kertin eiga að standa og hvaða tónlist á að hljóma í bakgrunni. Þú hefur líklega byrjað að sanka að þér jólagjöfunum í sumar, þegar aðrir voru uppteknir við sólböð og ferðalög. Í ár gætu þó nokkur óvænt augnablik ruglað aðeins í rútínunni þinni. Ekki líta á það sem truflun heldur tækifæri. Smá óreiða getur gert hátíðina fallega, mannlega og minnisstæða.

Tvíburarnir 21. maí–20. júní

Kæri tvíburi. Þú ert gleðigjafi jólanna. Allir vilja fá þig í skötuveisluna því þú kemur með léttleikann, sögurnar og endalaust spjall. Þú ert sá sem nær að gæða lífi í pakkaleiki og gerir jólaboðin skemmtilegri bara með því að mæta. Það er þó gott að muna að þú þarft ekki að vera í öllum boðum eða taka öll hlutverk. Ef þú ferð aðeins hægar yfir, muntu upplifa jólin sjálf líka, ekki bara vera mennskur jólaglaðningur annarra.

Krabbinn 21. júní–22. júlí

Kæri krabbi. Þú ert jólin í mannsmynd, með kerti, nostalgíu og mýkt. Þú kannt að gera heimilið að öruggu skjóli og fólk upplifir sanna jólagleði í þinni nærveru. Gjafirnar þínar eru vel ígrundaðar og þú nýtur þess að hafa fólkið þitt allt saman undir einu þaki. En mundu að þú þarft ekki að vera ábyrgur fyrir öllum jólaundirbúningnum. Þú mátt alveg sitja hjá og fela öðrum eitthvað af þínum verkefnum. Þú átt líka að njóta jóla, ekki bara halda þeim uppi.

Ljónið 23. júlí–22. ágúst

Kæra ljón. Þú kemur með gleði og hlýju inn í desember og fólk fyllist orku þegar þú mætir í jólahlaðborðið eða skötuveisluna. Þú kannt að gera jólin hátíðleg og nýtur þess að gleðja aðra, hvort sem það er með fallegum gjöfum eða óhóflegri framtakssemi. Í ár hvetur Spássía þig þó til að setjast aðeins niður og taka á móti. Þú þarft ekki alltaf að vera að vesenast eða græja eitthvað. Stundum er nóg að leyfa öðrum að dekra við þig og njóta þess að vera mikilvægur hluti af jólunum sjálfum.

Meyjan 23. ágúst–22. september

Kæra meyja. Þú ert sú sem tryggir að smákökurnar séu allar jafn stórar, að gluggarnir séu skínandi hreinir og að jóladagatalið sé á sínum stað. Þú kannt vel að gera jólin falleg og föndrar þér til gleði. En nú er tími til að taka smá frí frá fullkomnuninni. Leyfðu öðrum að skreyta, þó það verði aðeins skakkt og skrýtið. Það er hluti af jólunum. Þú munt sjá að þegar þú slakar aðeins á blómstrar hátíðin á nýjan hátt. 

Vogin 23. september–22. október

Kæra vog. Þú kemur með jafnvægi inn í desember og það er ómetanlegt. Þú kannt að halda frið og ró í kringum þig, jafnvel þegar stressið svífur í loftinu eins og piparkökuilmur. Þú skapar fallega stemningu með litlum smáatriðum sem gera svo mikið og hugsar vel um fólkið þitt. Spássía minnir þig þó á að þú þarft líka að halda í þína eigin gleði. Gefðu þér tíma til að setjast í ró, hlusta á jólalag sem þú valdir sjálf og njóta þess sem skiptir þig máli.

Sporðdrekinn 23. október–22. nóvember

Kæri sporðdreki. Þú ert jólagaldur, dularfullur og hlýr á sama tíma. Þú velur gjafir af mikilli kostgæfni og hefur einstakt lag á að snerta hjörtu fólks. Þú nýtur þess að skapa djúpar og fallegar stundir í skugga kertaljóss. En Spássía hvetur þig til að leyfa öðrum líka að koma að undirbúningnum. Þú þarft ekki að bera allt, þó þú sért vel fær um það. Líttu á jólin sem sameiginlegt ævintýri, ekki verkefni sem þú átt einn.


Þessi stjörnuspá er ekki byggð á vísindalegum rannsóknum, heldur tilfinningu spákonu á stöðu merkjanna í desember. Engu merkjanna ber skylda til að fylgja ráðum spárinnar en eru eindregið hvött til þess.

Nýjar fréttir