Bæjarráð Hveragerðisbæjar lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum yfir nýkynntri samgönguáætlun þar sem færslu þjóðvegarins, fyrir neðan Hveragerði frá Kömbum að Varmá, er frestað enn á ný. Í áætluninni er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrr en í fyrsta lagi árið 2029.
Færslan á þjóðveginum er mikið hagsmunamál fyrir Hvergerðinga og framtíðarþróun bæjarins með tilliti til umferðaröryggis og framtíðaruppbyggingar. Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar var breytt að beiðni Vegagerðarinnar á sínum tíma og miðar skipulag bæjarins og uppbygging undanfarinna ára við að núverandi þjóðvegur verði stofnbraut innan bæjarmarka.
Bæjarráð Hveragerðisbæjar skorar á þingmenn Suðurkjördæmis að beita sér í málinu og fyrir því að staðið verði við gefin loforð.

