5.5 C
Selfoss

Bláskógarbyggð er sveitafélag ársins 2025

Vinsælast

Í gær, fimmtudaginn 30. október voru tilkynntar niðurstöður könnunarinnar Sveitarfélag ársins 2025.Viðurkenning var veitt við hátíðlega athöfn á Hótel Selfoss til sveitarfélagsins sem kom best úr könnuninni. Sveitarfélag ársins er samstarfsverkefni tíu stéttarfélaga bæjarstarfsmanna innan BSRB í samvinnu við Gallup. Þetta er í fjórða skiptið sem þessi árlega könnun var framkvæmd. Í ár bárust alls um 2.400 svör og hefur þátttakan aldrei verið meiri.

Þessi könnun nær til starfsmanna sveitarfélaga um starfsánægju og gæði þjónustunnar. Í könnuninni er lagt mat á ýmsa þætti líkt og samskipti, starfsanda, líðan á vinnustað og hvernig sveitarfélagið styður við starfsfólk sitt.

Gestum var boðið upp á kaffi og kruðerí og skemmtu glæsilegu tónlistarkonurnar Sædís Lind Másdóttir og Fríða Hansen viðstöddum með lifandi tónlist.

Sædís Lind Másdóttir syngur og Fríða Hansen spilar á píanó og raddar. Mynd: DFS.is/SEG

Framkvæmdastjóri Mannauðssjóðs Heklu, Hrund Hlöðversdóttir, bauð gestum velkomna og hóf að kynna könnunina og markmið hennar. Markmiðið með þessari árlegu könnun er að hvetja stjórnendur sveitafélaga til að veita starfsumhverfi meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Markmiðið er ekki síst að veita þeim vinnustöðum sem hafa staðið sig vel viðurkenningu.

Tómas Bjarnason, sviðsstjóri stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafar Gallup, fékk næst orðið og ræddi nánar mikilvægi starfsánægju á vinnustað og fór yfir niðurstöður könnunarinnar í ár.

Niðurstöður könnunarinnar voru bornar saman milli þátttakenda sveitarfélaga og þeim fjórum sveitarfélögum sem koma best út úr könnuninni er veitt viðurkenning. Í fyrsta sæti í ár var Bláskógabyggð en Bláskógabyggð hefur fengið viðurkenningu hvert ár. Alls tóku níu sveitarfélög þátt í ár. Önnur sveitarfélög sem hlutu viðurkenningu í ár eru Grímsnes- og Grafningshreppur í öðru sæti, Hrunamannahreppur í þriðja og Skeiða- og Gnúpverjahreppur í fjórða sæti.

Hrund Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðssjóðs Heklu. Mynd: DFS.is/SEG
Tómas Bjarnason, sviðsstjóri stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafar Gallup. Mynd: DFS.is/SEG

Nýjar fréttir