Eyrún Björg Magnúsdóttir, 46 ára, býr á Selfossi með maka sínum, Guðjóni Birgi Þórissyni. Saman mynda þau samsetta fjölskyldu, Eyrún á þrjú börn og Guðjón þrjú.
Eyrún er kennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hún hefur verið að kenna félagsgreinar síðan 2011. Hún hefur alltaf djúpan áhuga á samfélagsmálum og stjórnmálum. Þegar hún var yngri sat Eyrún í bæjarstjórn, félagsmálanefnd og bæjarráði.
Eyrún hefur alltaf verið dugleg að vaða í hlutina og hikar ekki við að taka tækifærið. „Sumir myndu kannski kalla það kæruleysi en ég tek því þannig að ég hugsa ekki of mikið, ég bara geri.“ Henni fannst því mjög erfitt að fá þær upplýsingar að hún væri greind með brjóstakrabbamein.

Áskorun að sameina veikindi og þakklæti
Eyrún greinist með brjóstakrabbamein í ágúst 2023 eftir að hafa farið í reglulegt eftirlit. Hún hafði þá nýlega byrjað samband með núverandi maka sínum og var að byrja haustönnina í kennslu. Á föstudegi eftir kennslu hringir krabbameinsdeildin í Eyrúnu og hún er beðin um að koma aftur í viðtal á mánudagsmorgni. „Ég segi í símann: bíddu þýðir það að þetta sé eitthvað fyrir mig til þess að hafa áhyggjur af?“ Eyrún segir að eina svarið sem hún hafði fengið væri að það yrði rætt í viðtalinu. „Mér fannst þetta óþægilegt, ég fékk þá bara alla helgina til þess að ímynda mér hvað þetta gæti verið,“ segir Eyrún.
Tilfinningin að missa stjórnina yfir eigin lífi reyndist Eyrúnu erfið. „Allt í einu sat maður bara og maður mátti ekki taka neinar ákvarðanir og ég hafði ekkert með þetta að segja“ Eyrún lýsti hvað það var óþægilegt að fá ekki að ráða deginum sínum sjálf. Eyrún lýsir því erfiðast að sameina veikindin og þakklæti í eitt. „Ég fékk allt í einu ekki um neitt ráðið og átti á sama tíma að vera þakklát fyrir að þetta hafi ekki gengið lengra. Það var þetta þetta tvennt sem ég átti erfiðast með, að sameina,“ segir Eyrún.
Enn að jafna sig
Eyrún gekkst undir skurðaðgerð, geislameðferð og fékk hormónabælandi lyf. Í framhaldinu fór hún í erfðarannsókn sem leiddi í ljós að hún ber genagalla undir nafninu CHEK2, sem hefur áhrif á viðgerðarfrumur líkamans og eykur líkur á ákveðnum tegundum krabbameins.
Meðferðinni lýsti Eyrún sem erfiðri og fann hún fyrir miklum aukaverkunum. Hún er enn þann dag í dag að jafna sig. Þrátt fyrir að vera komin á bataveg segist hún ekki enn vera komin með fulla orku og finnur fyrir ákveðnu úthaldsleysi. Eyrún fór í 100% sem reyndist síðar of mikið fyrir hana. Í dag er Eyrún í námsleyfi frá vinnu sem hún nýtir einnig í áframhaldandi endurhæfingu.

Gott fólk með sér í liði
Fjölskylda Eyrúnar var hennar besti styrkur í gegnum ferlið. Þrátt fyrir að hafa aðeins nýlega hafið sambandið með Guðjóni þegar hún greindist, var hann sterkur stuðningur.
„Hann kom með mér í greiningarviðtalið. Hann hefði getað stungið af, en gerði það ekki. Hann stóð sig eins og hetja,“ segir Eyrún. Börnin hennar og ættingjar héldu vel utan um hana, en Eyrún segir fjölskylduna, sem eru öll búsett á Selfossi, mjög nána. Pabbi Eyrúnar hafði sjálfur greinst með krabbamein áður og náð bata og fannst Eyrúnu mjög gott að eiga samræður við hann og geta tengt við einhvern um það sem aðrir tengja ekki við.
Eyrún er þakklát fyrir stuðninginn að baki sér. Vinkonur hennar voru duglegar að koma henni út úr húsi og gættu þess að Eyrún lokaði sig ekki inni. „Við erum mjög mikið að hittast og spila eða fara eitthvert, þær komu með mér í Bleika Boðið fyrir tveimur árum sem var fyrsta Bleika Boðið mitt á öðrum forsendum.“

Rétt fyrir aðgerð hafði Eyrún samband við Krabbameinsfélag Suðurlands, Brosið, og kynnti sér þjónustu þar. Eyrún segist ekki hafa haft hugmynd um hvað það væri mikið í boði á vegum félagsins fyrr en hún veikist. „Það er líkamsrækt, golfnámskeið, sálgæsla og ýmsir spjallfundir,“ Eyrún telur upp. „Svo eru ýmis handverksnámskeið.“ Eyrún fór á leirnámskeið hjá félaginu og hún segist hafa fundið sig í þeirri afþreyingu. Eyrún segir leirlistina hafa verið sín endurhæfing. „Ég var vön því að vera alltaf upptekin. Þetta gaf mér rútínu í tóma rúmið, ég sat ekki bara heima og beið eftir símtölum. Ég leira núna heima hjá mér.“
Eyrún segir alla getað fundið eitthvað við sitt hæfi hjá krabbameinsfélaginu og að allir taki vel á móti manni. Þetta er öflugt sjálfboðaliðastarf en Eyrúnu finnst að það mætti vera meiri stuðningur við félagið sjálft frá öðrum félagasamtökum og fyrirtækjum á svæðinu.
Mikilvægt að forgangsraða okkur sjálf
Stuttu fyrir greiningu Eyrúnar veikist bróðir hennar með MND. Það hafi verið mikil áminning fyrir Eyrúnu hvernig lífið etur breyst á örskotsstundu. Eyrún segir sig hafa lært mikilvægi þess að forgangsraða orku sinni í það sem raunvörulega skiptir henni máli. „Við þurfum að losa okkur undan því að við eigum alltaf að vera að klára eitthvað fyrir aðra eða klára eitthvað sem kannski skiptir ekki máli til lengri tíma litið. Hver er stóra myndin okkar?“ Eyrún segir það vera allt of margir einstaklingar í dag að drukkna í verkefnum og eru að bugast, „en við ráðum þessu. Við þurfum bara að ákveða okkar mörk.“
Eyrún vekur athygli á Krabbameinsfélagið og hvetur bæði þá sem hafa nýlega greinst og einnig aðstandendur að nýta sér aðstöðu þar. Eyrún bendir á að það á að vera óhræddur við að spyrja spurningar þegar þörf er á svörum. Að lokum minnir hún á að vera mannlegur í aðstæðum sem slíkum. „Maður má vera viðkvæmur og maður má fara í sjokk og manni má líða illa og vera í fýlu og þetta er ekkert gaman. Þetta er ekkert sanngjarnt en sem betur fer er heilmikið í boði og dýrmætt að geta nýtt sér þann stuðning.“
SEG

