2.6 C
Selfoss

Hispurslausar kynlífslýsingar lita hvern kafla

Vinsælast

Sandra Clausen hefur haldið sér að verki við ritstörfin en nú á dögunum kemur út hennar tíunda bók. Áður hefur hún gefið út sjö bóka seríuna Hjartablóð sem naut mikilla vinsælda en þær eru sögulegar skáldsögur með erótísku ívafi. „Sögulegar skáldsögur hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér í gegnum tíðina og því lá áhuginn mest í því að skrifa sjálf þannig bækur,” segir Sandra í samtali við Dagskrána.

Söndru hefur jafnframt langað að prófa eitthvað alveg nýtt og í sumar, í samvinnu við Sögur útgáfu, kom út bókin „Klúbburinn“. Hún gerist í rauntíma og það hér á landi, nánar tiltekið á Siglufirði.

„Hvers vegna Siglufjörður varð fyrir valinu er kannski vegna þess að þar þekki ég mig aðeins til, nógu mikið til þess að tengja við staðinn, bæði háu fjöllin sem sumum þykja umvefjandi en öðrum kæfandi og fallegar hlíðarnar. Það fer eflaust eftir dagsforminu hvernig upplifunin er af þessu litla sjávarþorpi, sem er svo sjarmerandi á margan hátt og með mikla sögu.”

Sjá frétt:
Fullorðinsbækurnar Hjartablóð koma blóðinu á hreyfingu

Í nýju seríunni, Klúbburinn, fjallar Sandra um þær tilfinningaflækjur sem við öll eigum til með að upplifa í gegnum lífið og tilveruna. Aðalpersónan, Karen, er tæplega fertug kona sem gengur á vegg með sjálfa sig eftir að hafa farið á hnefanum í sínu lífi í lengri tíma. Sagan sýnir hvernig hún brýst út úr viðjum vanans í leit sinni að sjálfri sér. Einnig er að finna ýmsar ádeilur um viðurkennda samfélagslega hegðun og þau vandamál sem kunna að sýnast stærri en þau reynast í raun í okkar nútímasamfélagi. Umfram allt slær Sandra á létta strengi og efnið á það til að kitla hláturtaugarnar er Karen kemur sér í ýmis vandræði. Einnig er bókin mjög erótísk þar sem hispurslausar kynlífslýsingar lita hvern kafla.

„Þarna vildi ég hreint og beint athuga hvort ég ætti erfitt með að snúa mér að algjörlega nýju efni enda setið að skrifum við sömu seríuna í tíu ár. Þvert á móti skrifaði bókin sig næstum sjálf og er eftirminnilegast dagar í veikindum og skammdegi þar sem eini drifkrafturinn var að pikka orð á lyklaborðið. Bókin er sannkallaður ljúflestur með enn frekari áherslu á erótík og nánd.”

„Við þurfum fleiri bækur sem einblína á nánd og þær tilfinningar sem felast í því að vera mannlegur, sem innihalda orð sem lyfta okkur upp og ilja hjartanu. Nóg er af sakamálasögum og myrku efni á samfélagsmiðlum, skammdegið er fram undan og næsta bók í þessari nýju Klúbba-seríu kemur út rétt fyrir jólin. Áætlaður útgáfudagur er einhvern tímann í nóvember og heitir Klúbburinn – Jól á Tenerife. Tilvalið er að grípa hana með sér um borð í flug á leið til Tenerife yfir hátíðina eða fletta henni undir teppi og súpa á góðum bolla af kakó yfir eldheitu efni bókarinnar.” Sandra varar þó við að ef fólk er ekki fyrir erótísk skrif þá er eins gott að sleppa því að lesa bókina þar sem ansi opnar lýsingar af kynlífi eru í hverjum kafla.

Þriðja serían farin af stað í samstarfi við Storytel

Þó eru skrif Söndru þessa dagana ekki bara um bert hold og suðrænar strandir þar sem þriðja serían er farin af stað, Blóðbönd, og kemur fyrsta bókin út sem hljóð og rafbók í næstu viku í gegnum Storytel. Þar les Salka Sól bókina Galdra – Imbu sem gerist á myrku galdraöld Íslandssögunnar, nánar tiltekið 17. öldinni og fjallar þar um prestsdótturina Ingibjörgu Jónsdóttur og sú sería er meira í anda Hjartablóðs.

„Mér þykir mjög vænt um þá seríu en hugmyndin kviknaði er ég var stödd í kommúnu á fallegri eyju við strendur Svíþjóðar síðasta sumar. Ég var beðin um að skrifa eitthvað svipað og áður nema sögusviðið Ísland og nær okkar tíma. Í þeirri kommúnu sem ég dvaldi í var ég með fjöldann allan af frjóum höfundum í kring sem gaf mér innblástur og ekki skemmdi sjóbað fyrir svefninn og þær löngu kvöldstundir yfir heitri gufu þar sem við deildum innbyrðis ýmsu tengdu listinni og fór af stað handrit í huganum að þessari nýju seríu – Blóðböndum. Þau skrif eru byggð á sögulegum heimildum og raunverulegum persónum en ég tek mér þónokkuð skáldaleyfi þegar kemur að ártali og atburðarás.”

„Þegar ég hafði valið mér Imbu og hennar sögu til að skrifa um áttaði ég mig svo á að hún er mín formóðir í föðurlegg og fóstri hennar skyldur beint í legg móður minnar. Þannig tengi ég enn frekar við titilinn Blóðbönd og ég trúi ekki öðru en að þessi saga eigi eftir að hreyfa við fólki; ég vil gera Imbu hærra undir höfði en gert var í þá dagana þar sem hún var talin göldrótt norn en var einungis kjarnakona síns tíma. Óþægileg, var sagt í hlaðvarpinu Hið Myrka Ísland en þar hef ég stutt mig við heimildir, sem og í bókum og á netinu. Það er því heilmikið ferðalag fram undan sem ég vona að þið eigið eftir að verða mér samferða í og njóta í leiðinni.”

Nýjar fréttir