2.6 C
Selfoss

Bráðfyndin og skemmtileg sýning í boði Leikfélags Hveragerðis

Vinsælast

Laugardaginn 11. október sl. frumsýndi Leikfélag Hveragerðis gamanleikinn Viltu finna milljón? eftir Ray Cooney. Leikhópurinn hlaut hlýjar móttökur og húsið var vel sótt enda uppselt á sýninguna.

Leikritið er um hjónin Harald og Ingibjörgu, leikin af Ingberg Örn Magnússyni og Mariu Araceli. Haraldur hefur alla tíð unnið hjá skattinum með lágar tekjur, en einn daginn finnur hann skjalatösku fulla af peningum í slysni. Hann ákveður að þetta sé hans tækifæri til betra lífs og fer beint í að panta flug aðra leiðina út í heim. En málið er auðvitað ekki svo einfalt og heilmiklar flækjur, lygar og taugaveiklun fylgja í kjölfarið.

Verkið er leikstýrt af Ingrid Jónsdóttur sem hefur gert prýðisverk að halda utan um hópinn. Alls eru átta leikarar sem stíga á svið og láta ljós sitt skína. Ásamt Ingberg og Mariu eru það þau Hrafnhildur Faulk, Sindri Mjölnir Magnússon, Gunnlaugur Ragnarsson, Elías Óskarsson, Valdimar Ingi Guðmundsson og Bernhard Jóhannesson.

Mynd: Aðsend.

Frumsýningin gekk vonum framar og áhorfendur hlógu mikið og skemmtu sér vel. Bæjarstjóri Hveragerðis, Pétur G. Markan, var meðal þeirra sem mættu á frumsýningu og fór með nokkur orð og afhenti leikhópnum og lykilfólki á bak við tjöldin blómvönd í lok sýningar.

Fólk er endilega hvatt til að láta sjá sig á þessari bráðskemmtilegu sýningu. Miðasölu á sýninguna má finna á tix.is

Nýjar fréttir