Farskóli íslenskra safna og safnafólks var haldinn á Hótel Selfossi dagana 1.-3. október sl. Um 160 safnamenn skráðu sig á skólann sem er stærsti vettvangur safnamanna til að hittast en farskólinn er haldinn á mismunandi stöðum ári til árs.
Farskólinn gekk snurðulaust fyrir sig og jafnvel rigningin var ekki til travala. Á dagskrá voru málstofur, fyrirlestrar og umræður og þátttakendur urðu margs vísari um nýjungar í safnageiranum. Farin var skoðunarferð í Listasafn Árnesinga, Byggðasafn Árnesinga og Hersafnið á Selfossflugvelli og ekið var í þremur rútum frá GTS undir leiðsögn Hannesar Stefánssonar sem hafði frá ýmsu að segja. Ratleikur um Selfoss hitti í mark. Það var mikið spjallað, alltaf eru ný andlit á farskólunum en aðrir áttu endurfundi. Pub Quiz var fyrsta kvöldið og að sjálfsögðu glæsileg árshátíð degi síðar. Þema farskólans að þessu sinni var „Áreiðanleiki, trúverðugleiki og sannindi í söfnum“ sem skírskotar til nýja miðbæjarins á Selfossi.
Farskólinn er haldinn af Félagi íslenskra safna og safnafólks með stuðningi Safnaráðs og með þátttökugjöldum. Í farskólastjórn voru Lýður Pálsson, Byggðasafni Árnesinga, sem var farskólastjóri, Sigurlaugur Ingólfsson, Borgarsögusafni, Helga Aradóttir, Náttúruminjasafni Íslands og Kristín Scheving, Listasafni Árnesinga. Með farskólastjórn starfaði einnig Dagrún Ósk Jónsdóttir starfsmaður FÍSOS.

