2.9 C
Selfoss

Viltu finna milljón í Hveragerði?

Vinsælast

Leikfélag Hveragerðis frumsýnir gamanleikritið Viltu finna milljón? laugardaginn 11. október næstkomandi. Verkið segir frá hjónunum Haraldi og Ingibjörgu. Haraldur hefur unnið hjá skattinum á lúsarlaunum svo lengi sem elstu menn muna en einn daginn finnur hann fulla tösku af peningum. Þetta er vanur maður sem sér að féð er illa fengið en hann ákveður að þetta sé hans tækifæri til betra lífs og fer beint í að panta flug aðra leiðina út í heim. En málið er auðvitað ekki svo einfalt og heilmiklar flækjur, lygar og taugaveiklun fylgja í kjölfarið.

Leikarar sýningarinnar eru átta talsins. Aðalleikarar eru Ingberg Örn Magnússon og Maria Araceli sem fara með hlutverk Haraldar og Ingibjargar. Aðrir leikarar eru Hrafnhildur Faulk, Sindri Mjölnir Magnússon, Gunnlaugur Ragnarsson, Elías Óskarsson, Valdimar Ingi Guðmundsson og Bernhard Jóhannesson.

Mynd: Aðsend.

Leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir. Hún hefur mikla reynslu af bæði leikstjórn og leik. Hún hefur meðal annars leikstýrt tvisvar áður hjá Leikfélagi Hveragerðis.

„Æfingar hafa gengið mjög vel og fólk má búast við því að skemmta sér vel og hlæja mikið,“ segir Ingberg Örn Magnússon, aðalleikari sýningarinnar.

Nýjar fréttir