Háskólafélag Suðurlands hélt á dögunum vinnusmiðju á Selfossi sem markaði upphaf nýs samstarfsverkefnis með Iceland Innovation Week, KPMG og Samtökum þekkingarsetra. Verkefnið hefur það að markmiði að efla nýsköpun og stafræna hæfni með áherslu á skapandi hugsun, frumkvöðlastarf og sjálfstraust þátttakenda.
Mikill áhugi var á viðburðinum og mættu þátttakendur víða af Suðurlandi. Dagskráin samanstóð af fyrirlestrum um gervigreind, nýsköpun og markaðsfræði og í lokin spunnust líflegar umræður um hvernig nýta mætti gervigreind til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og hámarka árangur þrátt fyrir takmarkað fjármagn.
Gestir fengu einnig hagnýt ráð um hvernig beita mætti einföldum gervigreindartólum í daglegu starfi til að spara tíma, styðja við þróun viðskipta og efla markaðssetningu. Fullt var út úr dyrum og fjöldi spurninga barst frá áhugasömum þátttakendum.
Vinnusmiðjan á Selfossi var sú fyrsta í röð sambærilegra viðburða sem haldnir verða í þekkingarsetrum víðs vegar um landið í haust.

