Gabríel Kristinsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.
Ég er ekki þekktur fyrir að leggja mig mikið fram í eldhúsinu en þegar ég tek mig til geri ég eitthvað sem ég kalla nachos-kjúkling, einstaklega fljótleg og þægileg uppskrift sem klikkar seint.
Nachos-kjúlli ala Gabríel
- Heill eldaður kjúklingur
- Nachos-flögur (saltaðar)
- Salsa-sósa
- Ostasósa
- Rifinn ostur
- Jalapeno (má sleppa)
Kjúklingurinn er rifinn niður og settur í stóra skál. Sósusum er því næst blandað saman við kjúklinginn. Ég er ekki með neinar sérstakar skammtastærðir á hráefnunum heldur mæli ég með að blanda þessu saman eftir ykkar smekk.
Næst blandið þið nachos-flögunum varlega í skálina. Þið viljið reyna að hafa flögurnar sem minnst brotnar.
Setjið allt í eldfast mót með rifnum osti ofan á og jalapeno eftir smekk og eldið á 200°C hita þangað til osturinn er orðinn giltur.
Borið fram með guacamole og sýrðum rjóma.
Ég skora á Ingva Má Guðnason til að koma með uppskrift í næsta blað Dagskrárinnar.

