2.9 C
Selfoss

Meðal fyrstu landeldisfyrirtækja heims til að hefja sölu á 5 kg laxi

Vinsælast

Mikilvæg þáttaskil urðu í starfsemi landeldisfyrirtækisins First Water í síðustu viku þegar félagið hóf vinnslu og pökkun á 5 kg laxi til útflutnings. Með því varð fyrirtækið eitt af fyrstu landeldisfyrirtækjum á heimsvísu til að ná þessum áfanga, en um er að ræða afar eftirsótta og verðmæta vöru á alþjóðamarkaði. Öll framleiðslan hefur nú þegar verið seld til Bandaríkjanna og Evrópu.

Í sumar hóf First Water notkun á fyrstu 25 metra yfirbyggðu landeldistönkunum, og eru nú fjórir slíkir tankar af átta komnir í fulla notkun. Tilkoma þessara tanka gerir félaginu kleift að framleiða lax í hæsta gæðaflokki og veita viðskiptavinum jafnt og stöðugt framboð allan ársins hring.

„Kaupendur okkar eru afar spenntir að fá þessa nýju hágæðaafurð. Það er mikil þörf á aukinni próteinframleiðslu á heimsvísu og First Water er nú í þeirri stöðu að vera eitt fárra fyrirtækja í heiminum sem getur boðið kaupendum 5 kg slægðan hágæðalax sem ræktaður er og unninn á umhverfisvænan hátt, allan ársins hring,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water.

Hreinleiki vatnsins og lokaðir tankar lykillinn að gæðum

Uppbyggingin á athafnasvæði First Water hefur gengið vel undanfarna mánuði. Félagið hefur fjárfest fyrir um 8 milljarða króna á árinu í tönkum, búnaði og öðrum innviðum. Gert er ráð fyrir að fyrsta fasa af sex verði lokið árið 2027 en framleiðslugeta í hverjum fasa verður um 10.000 tonn af slægðum laxi.

Eldistankarnir sem nú eru komnir í notkun eru yfirbyggðir og búnir fullkomnustu tækni sem völ er á. Virkni lokuðu tankanna er afar góð og með þeim er tryggt að áhrif utanaðkomandi streituvalda á borð við óveður, fugla og hávaða séu lágmörkuð sem og hætta á utanaðkomandi óhreinindum og sjúkdómsvöldum. Hreinleiki jarðsjávar sem nýttur er við framleiðsluna er einstakur og þannig er áhætta í rekstrinum takmörkuð og stöðug gæði lokaafurðarinnar tryggð. Félagið hefur tekið í notkun afar öflugan vatnshreinsibúnað sem tryggir svo að starfsemin skilar af sér sjóvatni sem er hreinna en sjórinn undan ströndum Þorlákshafnar. Þannig er framleiðsla First Water á laxi ein sú sjálfbærasta og umhverfisvænasta sem kostur er á.

„Það hefur verið afar ánægjulegt að sjá hve vel laxinn hefur vaxið og dafnað í yfirbyggðum tönkum. Fyrstu laxarnir fóru í tankana í júlí síðastliðnum og nánast um leið mátti sjá framfarir í vaxtarhraða. Þetta hátæknilega eldisumhverfi er afrakstur mikillar vinnu starfsfólks First Water og er virkni yfirbyggðu tankanna betri en væntingar stóðu til,“ segir Eggert.

Nýjar fréttir