Mig langar með nokkrum orðum að minnast Sigurjóns Þórs Erlingssonar múrarameistara og samferðamanni til margra ára. Ég vil þakka honum samfylgdina og forgöngu hans til margra framfaramála í okkar samfélagi. Sigurjón var félagslyndur maður, starfaði af miklum eldmóð og áhuga í mörgum félögum. Hann gaf sér tíma þrátt fyrir þá erfiðisvinnu sem hann stundaði. Hann var áhrifaríkur og fylgin sér í verkum. Mín formlegu kynni af Sigurjóni hófust á vettvangi bæjarmála, en það var árið 1983 að ég fékk þann heiður að taka sæti sem varamaður í bæjarstjórn Selfoss. Við vorum tveir ungir og óreyndir á þessum vettvangi, ég og Örn Grétarsson. Ég gleymi því ekki hvernig komið var fram við okkur og við hvattir áfram, þá man ég sérstaklega handaband Sigurjóns og hvað hann sagði við mig. Sigurjón átti sæti í sveitarstjórn í þrjú kjörtímabil og lét margt til sín taka til framfara og uppbyggingar í sveitarfélaginu. Síðan lágu leiðir okkar saman á vettvangi kirkjunnar. Sigurjón átti sæti í sóknarnefnd Selfosskirkju í 27 ár, þar af 23 ár sem aðalmaður. Hann var kjörinn ritari á fyrsta fundi og gegndi því hlutverki allan tímann. Það var lærdómsríkt að fá að starfa með jafn reyndum mann og Sigurjón var. Hann var lausnamiðaður og glöggur á aðalatriði málsins og stundum búinn að bóka niðurstöðuna áður en umræðunni var lokið. Hann lagði þekkingu sína og fagmennsku á margt sem gert var í kirkjunni sem gerði útlit hennar betra. Hann skrifaði sögu kirkjugarðsins frá árinu 1946, tók saman allt efni um kirkjuna og byggingarsögu hennar. Átti m.a. sæti í byggingarnefnd þegar kirkjan var stækkuð. Hann skar út fundarhamar sem hann gaf kirkjunni og margt fleira gæti ég talið upp sem Sigurjón kom að. En að endingu vil ég fyrir hönd Selfosskirkju þakka Sigurjóni Erlingssyni framlag hans og vinnusemi í garðar kirkjunnar. Megi minning hans lifa um ókomin ár. Ég votta öllum afkomendum hans innilegrar samúðar.
Björn Ingi Gíslason, formaður sóknarnefndar Selfosskirkju
Sérstakur ljómi leikur um minningarnar af áratuga vináttu og samferð með Sigurjóni Þór Erlingssyni en hann var jarðsunginn frá Selfosskirkju mánudaginn 22. september. Máttarstólpanum í starfi Alþýðubandalagsins og síðar Samfylkingarinnar í Árborg, þar sem hann gekk í öll verk. Eljan endalaus þegar kom að flokksstarfinu enda hafði hann mikla ánægju af því að hrærast í ati stjórnmálanna.
Sigurjón var ekki einungis öndvegis iðnaðarmaður heldur einnig afkastamikill rithöfundur. Eftir hann liggur fjöldi ritverka þar sem hann skrásetti sögur og fróðleik af ýmsu tagi. Nú síðast tók hann saman sögu sveitar- og bæjarstjórna Selfoss og Árborgar, þar sem m.a. er að finna ágrip allra sem þar hafa tekið sæti. Því verki lauk hann að morgni dags rétt fyrir andlát sitt.
Eftir að setu Sigurjóns í bæjarstjórn lauk sinnti hann mörgum hlutverkum innan hreyfingarinnar. Til dæmis stillti hann upp sigurlistanum frá sveitarstjórnarkosningunum í Árborg árið 2002, þegar Samfylkingin vann stórsigur og hlaut 42% atkvæða.
Í þeirri kosningabaráttu ríkti einstök stemning; Tryggvaskálinn iðaði af mannlífi og ólgaði af krafti. Vinaböndin sem þar urðu til standa enn og voru Sigurjón og Gulla í kjarna þess stóra hóps sem árum saman hittist í réttarsúpu heima í Skarði.
Með hægð og festu kom Sigurjón mörgu góðu til leiðar. Seinni árin var hann eldheitur Evrópusinni og færði sannfærandi rök fyrir því að landi og þjóð myndi farnast betur í skjóli sambandsins. Rétt einsog þegar hann fylgdi Margréti Frímannsdóttur og félögum úr Alþýðubandalaginu yfir í Samfylkinguna árið 1999. Það gerði hann af sannfæringu fyrir því að sameinað afl jafnaðarfólks væri leiðin til þess að sjónarmið félagshyggju yrðu ráðandi í samfélaginu.
Við Sigurjón stóðum saman vaktina í fleiri kosningabaráttum og prófkjörum síðustu þrjá áratugina en ég fæ talið. Það var sérstaklega ánægjulegt samstarf og sterk vinátta myndaðist. Stuðning hans átti ég eindreginn allan minn þingmannsferil og fyrir það er ég þakklátur.
Síðast heimsótti ég Sigurjón í sumarbyrjun þar sem hann sat á heimili sínu umkringur myndum af formanni flokksins okkar og forsætisráðherra. Sigurjón var mikill stuðningsmaður Kristrúnar Frostadóttur og hafði oft á orði að hann myndi ekki kveðja jarðvistina fyrr en Samfylkingin tæki aftur flugið og næði fyrri stöðu sem kjölfesta íslenskra stjórnmála. Það lifði hann blessunarlega þegar hann kvaddi saddur lífdaga. Sáttur við guð og menn.
Fjölskyldu og vinum Sigurjóns og Gullu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin lifir um öndvegis fólk.
Björgvin G. Sigurðsson
Þakkir til Sigurjóns Erlingssonar
Við félagar Sigurjóns Erlingssonar í Samfylkingunni í Árborg, þökkum honum ötult og óeigingjarnt starf fyrir hreyfingu okkar og bæjarfélag. Sigurjón var okkur félögum sínum góð fyrirmynd, því hann lagði alla tíð hug og hjarta í orð sín og verk, var þátttakandi, hvetjandi og ráðgefandi. Hann var þessi samfélagssinni sem sá alltaf að leiðin til framfara lægi í gegnum samstarf og því stærri vettvangur því betri. Hann hlúði að nærsamfélagi okkar með þátttöku í margvíslegum félagsstörfum og í bæjarstjórn, lét sig landsmál miklu varða og sá þessa sömu samstarfsleið ná út fyrir landsteinana líka og var því mjög hvetjandi þess að ríki Evrópu efldu samstarf sitt og að Ísland yrði þar fullgildur þátttakandi.
Sigurjón hélt öflugum huga til hinstu stundar. Eitt síðasta verk hans var að rita bók um fólkið sem hafði lagt sitt af mörkum fyrir íbúa í bæjarfélaginu okkar og skrá þar allt það fólk sem hafði setið í hreppsnefnd og bæjarstjórn Selfoss og síðan bæjarstjórn Árborgar. Það var hans leið til að þakka því fólki fyrir framlag sitt til samfélagsins sem hann unni.
Sigurjón Erlingsson, kæri félagi, þér sé heiður og þökk.
Fyrir hönd Samfylkingarinnar í Árborg,
Soffía Sigurðardóttir.

