Ásdís Evarsdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á að þakka mömmu fyrir áskorunina og læt mitt ekki eftir liggja. Hér deili ég uppskrift að humarpizzu sem hefur oft verið á boðstólum þegar góða gesti ber að garði.
Humarpítsa
- 1 skammtur pizzadeig
- Ca. ½ dós rjómaostur
- 1 dós tómatpúrra (um 140 g)
- 1 pakki skelflettur humar
- 25 g smjör
- 3–4 hvítlauksgeirar
- Pizzaostur
- Parmesanostur
- Ferskt basilika
Hitið ofninn í 200°C.
Fletjið pizzadeigið út og færið á bökunarplötu. Blandið saman rjómaosti og tómatpúrru og smyrjið á deigið. Dreifið pizzaosti yfir og bakið pizzuna í um það bil 15 mínútur.
Á meðan er smjör brætt á pönnu og hvítlaukurinn pressaður út í. Humarinn hreinsaður og eldaður upp úr hvítlaukssmjörinu.
Takið pizzuna út eftir 15 mín, dreifið humrinum yfir og látið hann bakast með í um það bil 5 mín til viðbótar.
Að lokum er pizzan tekin úr ofninum, parmesanostur rifinn yfir og ferskum basilblöðum sáldrað ofan á.
Rennur svo best niður með eðal hvítvíni í góðum félagsskap.
Að lokum skora ég á Sigríði Ósk Harðardóttur þar sem hún er ein mesta sælkerakona sem ég þekki og á pottþétt einhverja góða uppskrift fyrir okkur hin að njóta.

