Skóflustungur að næsta áfanga í uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi fóru fram í dag. Það var stjórn Félags eldri borgara á Selfossi sem tóku fyrstu skóflustungurnar að sex nýjum húsum við Miðstræti. Með þessu markast upphaf að fimm þúsund fermetra verkefni sem felur í sér íbúðir, verslunar- og þjónusturými og bílakjallara.
Um er að ræða sex sögufræg hús sem öll áttu uppruna sinn í miðbæ Reykjavíkur og verða þau nú reist á Selfossi. Þar á meðal eru Syndikatið og Ingólfshvoll. Á efri hæðum húsanna verða 27 íbúðir en á jarðhæð verslanir og þjónusta. Áætlað er að framkvæmdum ljúki um mitt ár 2027.

„Við erum afar spennt fyrir þessum áfanga enda er hann fyrsta skrefið í frekari uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi,“ segir Leó Árnason, framkvæmdastjóri Landsbyggðar. „Nýi miðbærinn hefur sannað gildi sitt með því að efla mannlíf og menningarstarf í bænum og skapað ný störf. Þetta gefur okkur fullt tilefni til bjartsýni um áframhaldandi uppbyggingu og þau tækifæri sem í henni felast.“
Hugmyndafræðin að baki miðbænum á Selfossi er að endurreisa horfin hús úr Íslandssögunni og skapa lifandi vettvang fyrir mannlíf og menningu. Þar má nú finna endurbyggð hús víðs vegar af landinu en í þessum áfanga eru öll húsin ættuð úr miðbæ Reykjavíkur. Húsin voru öll byggð um aldamótin 1900 og mörg þeirra brunnu til kaldra kola í brunanum mikla árið 1915.
Húsin sem verða reist við Miðstræti:
-
Austurstræti 7: Tvílyft hús reist snemma á 20. öld, brann 1915.
-
Austurstræti 9: Þriggja hæða timburhús, hýsti verslunina Edinborg, brann 1915.
-
Syndikatið: Fyrsta stórverslun landsins, reist rétt eftir 1900, brann 1915.
-
Ingólfshvoll: Reist 1904, endurbyggt eftir brunann 1915, rifið 1969.
-
Bergstaðarstræti 14: Timburhús reist 1907, brann rúmum áratug síðar.
-
Völundur: Trésmiðja reist 1904, rifið um 1990.


Fleiri myndir frá skóflustungunni












