2.9 C
Selfoss

Íslandsmeistarar 2010 í 3. flokki

Vinsælast

Meistaraflokkur kvenna varð Íslandsmeistari í 2. deild kvenna í knattspyrnu eftir 4-0 sigur á liði Völsungs á föstudaginn. Selfossliðið hafði mikla yfirburði í 2. deildinni í sumar, liðið vann sextán af sautján leikjum sínum og gerði eitt jafntefli en markatala liðsins var 68-10.

Í sigurvímunni á JÁVERK-vellinum á föstudaginn var gaman að hugsa 15 ár aftur í tímann (11. september 2010) og rifja upp Íslandsmeistaratitil 3. flokks kvenna en Selfoss vann þá lið Vals 2-0, Kristín Elísabet Skúladóttir og Bríet Mörk Ómarsdóttir (víti) skoruðu mörkin. Valsstúlkur voru taplausar fram að úrslitaleiknum, höfðu reyndar ekki tapað leik í nærri tvö ár. Það var ekki tilviljun að Selfossstelpurnar urðu Íslandsmeistarar, liðið var skipað kraftmiklum, efnilegum og sönnum íþróttamönnum. Veturinn 2010-2011 gerðum við saman skemmtilegan DVD-disk, kannski þurfum við að koma honum á netið? Guðmundur Sigmarsson, þjálfari stelpnanna, var einnig þjálfari bikarmeistara karla í 3. flokki 2021.

Tómas Þóroddsson, sem var í stjórn KSÍ á þessum tíma, lagði til að úrslitaleikurinn yrði spilaður á Selfossi og afhenti Söru fyrirliða bikarinn góða.

Nokkrar staðreyndir um leikmenn Íslandsmeistaraliðsins 2010:

  • Guðrún Arnardóttir leikur nú með Braga í Portúgal (SC Braga Feminino) en hún lék með sænsku liðunum FC Rosengård og Djurgården. Guðrún vann bæði sænska bikarmeistaratitilinn og Damallsvenskan. Guðrún hefur leikið 55 A-landsleiki og 31 landsleik fyrir yngri landsliðin.
  • Kristrún Rut Antonsdóttir hefur leikið 198 meistaraflokksleiki á Íslandi og leikur nú með Þrótti í Reykjavík. Kristrún hefur leikið á Ítalíu, í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Austurríki þar sem hún varð meistari með St. Pölten.
  • Guðmunda Brynja Óladóttir hefur leikið 349 meistaraflokksleiki á Íslandi, 204 mörk og 15 landsleiki og 1 mark.
  • Eva Lind Elíasdóttir hefur leikið 234 meistaraflokksleiki á Íslandi, 41 mark og 3 landsleiki fyrir yngri landsliðin og skorað 1 mark

Kristinn M. Bárðarson

Sara Árnadóttir fyrirliði tekur á móti bikarnum. Ljósmynd: Guðmundur Karl Sigurdórsson.
Eva Lind og Guðmunda Brynja eru Íslandsmeistarar í 2. deild kvenna með Selfossi 2025. Ljósmynd: Hrefna Halldórsdóttir.

Nýjar fréttir