2.9 C
Selfoss

Sókn Hins heilaga kross á Selfossi stofnuð á Krossmessu

Vinsælast

Sunnudaginn 14. september hélt kaþólska kirkjan hátíðlega upphafningu hins heilaga kross – Krossmessu. Séra Denis O’Leary, sóknarprestur í Maríusókn í Breiðholti og á Suðurlandi, prédikaði í sunnudagsmessu sem haldin var í kapellunni í Smáratúni 12 á Selfossi. Kapellan var þéttsetin en hún rúmar liðlega 30 manns. Guðspjallstexti dagsins var úr Jóhannesarguðspjalli, 3. kafla versanna 13-17, þar sem segir: „Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf.“ Séra Denis sagði meðal annars: „Bræður og systur, gerum nýja og staðfasta skuldbindingu um að snúa baki við allri syndsamlegri hegðun sem kann enn að vera hluti af lífi okkar. Megi hátíð upphafningar hins heilaga kross hjálpa okkur að gera iðrun og snúa okkur til Guðs, að syndir okkar verði afmáðar í skriftasakramentinu.“ Að því búnu sagði hann: „Frá biskupinum okkar fengum við þær gleðifréttir að frá og með deginum í dag, 14. september 2025, hefði verið stofnuð ný sókn í biskupsdæminu. Það er Sókn hins heilaga kross sem er staðsett á Selfossi. Allur suðurhluti landsins til Kirkjubæjarklausturs og jafnvel lengra tilheyrir nýju sókninni. Nafn nýju sóknarinnar tengist sögu kirkjunnar í þessu landi því skammt frá Selfossi, í Kaldaðarnesi, var kross sem pílagrímar stönsuðu hjá á leið sinni til Skálholts. Hann var einnig virtur af heimamönnum, sérstaklega öldruðum og sjúkum, sem trúðu því að hann hefði lækningamátt.“

Séra Denis O’Leary flytur prédikunina í Smáratúni og greinir frá stofnun nýju sóknarinnar. Ljósmynd: Ágúst Elvar Almy.

Áður hafði verið greint frá því að séra Mercurio Rivera III, núverandi aðstoðarprestur við kirkju heilags Jóhannesar Páls II á Ásbrú og enn áður aðstoðarprestur í Maríukirkju og á Selfossi, hefði verið skipaður stjórnandi hinnar nýju sóknar. Séra Mercurio er frá Filippseyjum og hefur starfað sem prestur hjá Kaþólsku kirkjunni á Íslandi frá því í ársbyrjun 2021. Séra Denis hafði áður greint frá því að Davíð biskup myndi bjóða séra Mercurio velkominn til starfa í messu sem haldin verður sunnudaginn 5. október næstkomandi í kapellunni að Smáratúni 12.

Eins og kunnugt er, er ný kirkja í byggingu á Selfossi við Móaveg. Staða byggingarframkvæmdanna er sú að þakið er fullgert, milliveggir hafa verið reistir í prestsíbúðinni og það er nánast lokið við að einangra. Bílastæðið er malbikað og göngustígurinn frá götunni að kirkjunni er tilbúinn. „Ef þið viljið taka þátt í að hjálpa okkur að halda áfram, þá er stuðningur ykkar ómetanlegur: Hægt er að leggja framlög inn á: Reikning hjá Íslandsbanka: 0513-14-350024. Kennitala: 680169-4629… Við færum Bonifatiuswerk, stærsta og dyggasta stuðningsaðila þessa verkefnis sérstakar þakkir,“ segir á heimasíðu biskupsdæmisins: https://catholica.is/framkvaemdir-a-selfossi/.

Nýjar fréttir