2.9 C
Selfoss

Fimm einkasýningar opna á laugardaginn

Vinsælast

Listasafn Árnesinga opnar fimm einkasýningar laugardaginn 13. september klukkan 15:00 – verið innilega velkomin.

Listamennirnir eru: Finnbogi Pétursson með sýninguna Skjálfti, Guðrún Kristjánsdóttir með sýninguna Umritanir; Innsæi-Útsýni, Freyja Eilíf með sýninguna Himnugöt, Piotr Zbierski með sýninguna Stöðugt Völundarhús og Ilana Halperin með sýninguna Líffræði Mars.

Á mörkum tíma

Haustsýningar Listasafns Árnesinga 2025 varpa ljósi á dulda fleti tilverunnar og bjóða okkur að sjá út fyrir það augljósa. Dagsdaglega nýtist klukka til að fylgjast með hreyfingu tímans en mögulegt er að mæta honum af meiri innileika. Það má ganga inn í tímann eins og rými, skynja hann sem titring og skoða spor hans í jarðlögum, líkömum og landslögum.

Skjálfti Finnboga Péturssonar opnar skynfærunum nýja leið að veruleikanum og afhjúpar andlegri víddir þess efnislega með vísindalegri nálgun. Ósýnilegum bylgjum er miðlað í gegnum hljóð, titring og ljós svo það óræða nær upp á stig hins meðvitaða.

Guðrún Kristjánsdóttir stillir sig inn á ferli og krafta náttúrunnar og leyfir þeim að hreyfa við sér. Í listsköpun sinni umritar hún birtingarmyndir náttúrunnar frá einum miðli til annars og skapar úr þeim nýjar táknmyndir. Efnið hefur áhrif á andann sem hefur áhrif á efnið og öfugt.

Innblásin af hinu andlega sviði, m.a. af sjamanisma og náttúrutrú, lítur listakonan Freyja Eilíf til þess sem er „fyrir handan,“ og hefur áhrif á okkur án þess að við áttum okkur á því.

Piotr Zbierski segir að ljósmyndun skuli ekki festa tímann heldur bjóða okkur inn í hann. Minning er ekki fastmótaður hlutur heldur miðill eða rými þar sem merking getur stöðugt endurmótast.

Verk Ilönu Halperin endurspegla ástríðu fyrir jarðfræðilegri fagurfræði þar sem ljóðræn nálgun blandast vísindalegri nálgun. Hún skoðar djúptíma, jarðfræðilegan tíma sem nær langt út fyrir sögu mannkyns. Á Íslandi og á Orkneyjum hefur hún ástundað rannsóknir á landsvæðum sem líkjast plánetunni Mars og auka skilning á henni sem eins konar systurplánetu okkar. (Texti: Freyja Þórsdóttir)

Listasafn Árnesinga er í eigu átta sveitarfélaga í Árnessýslu og er opið alla daga nema mánudaga í vetur frá 12-17 og er ókeypis aðgangur. Fylgist með öflugu starfi safnsins ykkar á samfélagsmiðlum.

Nýjar fréttir