2.9 C
Selfoss

Lítill sjávarbær verður að líflegum vettvangi menningu og upplifana

Vinsælast

Haustgildi er hátíð sem haldin er í byrjun september og breytist þá lítill sjávarbær, nánar tiltekið Stokkseyri, í líflegan vettvang menningarupplifana þegar Haustgildi, uppskeruhátíðin „Menning er matarkista“, fer fram. Hátíðin hefur á skömmum tíma fest sig í sessi sem einstakur vettvangur fyrir matarmenningu, bókmenntir og listir á Suðurlandi. Það er Pétur Már Guðmundsson sem stendur fyrir hátíðinni en hann rekur bóksölu í Brimrót sem er viss „höfustöð“ Haustgildis. Þar er rekið „Co operation“ þar sem listafólk kemur saman og stundar sína vinnu. Brimrót er á efri hæð Gamla Gimlis sem er vissulega hús með sögu en þar hefur verið ýmis starfsemi á árum áður en þar var skemmtistaður um tíma, rekið bókasafn og nýtt sem íþróttahús svo eitthvað sé nefnt. Ég heyrði í Pétri sem virðist búa yfir óbifandi drifkrafti þegar kemur að menningu og listum, hann er dugnaðarforkur í því að styrkja menningarlíf í Árborg og víðar hér á Suðurlandi þar sem sífellt fleiri taka þátt í hátíðinni Haustgildi.

„Hugmyndin að einhvers konar markaði kviknaði fljótlega eftir að við komum inn á Brimrót, í Gimli, gamla félagsheimilinu á Stokkseyri. Upphaflega var hugmyndin að hafa svona markað með grænmeti og handverki. Svo eru náttúrulega svo mörg gallerí á Stokkseyri og þá var gott að fá þau með,” svarar Pétur þegar ég spyr hann að uppsprettu hugmyndarinnar að Haustgildi.

„Svo eftir að Bókabæirnir austanfjalls tóku Haustgildi að sér sem sína bókmenntahátíð hefur sá þáttur stækkað mikið. Fleiri höfundar og allavega einn svona stærri viðburður. Í fyrra var tíu ára afmæli Bókabæjanna og þá fengum við Shaun Bythell, skoskan höfund og bóksala, í heimsókn. Í ár ætlum við að hafa dagskrá helgaða Ísaki Harðarsyni og ljóðabókinni hans Stokkseyri,” bætir hann við brosmildur á svip.

En hvað hefur staðið upp úr og hvað drýfur þig áfram í að halda þessa tilteknu hátíð á hverju ári?

„Þetta hefur alltaf verið skemmtilegt og gefandi en ef ég ætti að nefna einn viðburð var það alveg ógleymanlegt þegar Eyjólfur Eyjólfsson og Luke Starkey voru með tónleika í Stokkseyrarkirkju. Það var alveg ógleymanlegt og skapaði þessa hefð að hafa svona andaktuga tónleika í Stokkseyrarkirkju á laugardagskvöldinu. Nú eru það tónleikar Ingibjargar Elsu Turchi, Hróðmars Sigurðssonar og Sólrúnar Mjallar Kjartansdóttur.”

„Það er svo skapandi og gott andrúmsloft á Stokkseyri, frábær hópur af listafólki og svo fallegt hérna; það er mikið til sem hvetur mig áfram. Gera einhverja viðburði og dagskrá með góðu fólki!“ Endar hann á að segja með eftirvæntingu í rómnum enda hátíðin einungis handan við hornið.

S.C.

Nýjar fréttir