2.9 C
Selfoss

Karlakór Hveragerðis er með þeim hressari

Vinsælast

Ítalíuferð, Sinfó, menningarverðlaun Hveragerðisbæjar, skemmtanir, tónleikar, nýir félagar og fleira og fleira

Hinn ungi Karlakór Hveragerðis, sem hefur starfað frá hausti 2016, hefur getið sér gott orð fyrir einstaka glaðværð og skemmtilega framkomu á undanförnum árum. Kórinn leggur jafnframt mikinn metnað að sjálfsögðu í vandaðan söng og vill gera vel þar og hefur kórinn á að skipa þrjátíu og sjö hæfileikaríkum söngfélögum, hver öðrum skemmtilegri. Í röðum kórmanna má einnig finna frábæra einsöngvara.

Tvær utanlandsferðir og eiginhandaáritanir

Kórinn hefur farið í tvær utanlandsferðir, nú síðast fyrir tæpu ári síðan en þá var haldið til Ischia og Napoli á Ítalíu, auk þess var hin margrómaða Capri-eyja heimsótt. Haldnir voru tónleikar á eyjunni Ischia í dásamlegri kaþólskri kirkju þar sem hljómburður er einstaklega góður. Skemmst er frá því að segja að kórinn sló algjörlega í gegn og ekki síst okkar skærasta stjarna, Arnar Gísli Sæmundsson. Þurftum við að gefa eiginhandaráritanir að tónleikum loknum og teknar myndir af okkur í bak og fyrir ásamt okkar ítölsku aðdáendum. Við tókum þessum góðu móttökum af einstakri hógværð og háttvísi eins og okkur er von og vísa. En gaman er þó að segja frá því að við virðumst vera mun þekktari og frægari á Ítalíu en nokkurn tíma hér heima, því einhverjir aðdáendur okkar frá Ítalíu komu við á upplýsingamiðstöð Suðurlands á ferð sinni um Ísland og ákváðu að leita að okkur en þar á bæ hafði enginn heyrt á kórinn minnst. Þessi ferð kórsins til Ítalíu var alveg dásamleg í alla staði og afar vel skipulögð af Eldhúsferðum en auk þeirra var okkur einnig innan handar Kolbrún Dögg Eggertsdóttir, ættuð frá Selfossi, en hún er einmitt búsett á Ischia og er þar öllum hnútum kunnug.

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Kórinn hefur allt frá upphafi verið duglegur við að koma fram á alls konar skemmtunum, fjölmörgum tónleikum bæði þá einir og sér og eins með öðrum listamönnum og kórum. Haldið vortónleika, sem og hausttónleika og farið í alls kyns ferðir hér innanlands sem og utan.

Gaman var t.d. að syngja og taka þátt í tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt fleiri kórum á Suðurlandi, sem haldnir voru á Selfossi í maí síðastliðnum. Auk þess fór kórinn til Vestmannaeyja í beinu framhaldi og söng þar á vortónleikum Karlakórs Vestmannaeyja. Einnig var sungið á skemmtilegum tónleikum með Kór Guðríðarkirkju á vormánuðum í þeirra fallegu kirkju. Karlakór Hveragerðis mun halda hausttónleika þann 18. október næstkomandi í Hveragerðiskirkju klukkan 16:00, ásamt góðum gesti, sem verður sagt frá síðar hver er.

Menningarverðlaun Hveragerðisbæjar 2025

Hveragerðisbær og íbúar bæjarins hafa ávallt tekið okkur opnum örmum allt frá stofnun kórsins og sýndu það í verki svo um munaði núna þann 17. júní síðastliðinn með því að veita kórnum menningarverðlaun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2025. Erum við kórfélagar ævinlega þakklátir fyrir þann heiður og slíkt er mikil hvatning á okkar vegferð. Það er mikill hugur í kórmönnum og mikil sigling á kórnum og viljum við endilega að kórinn stækki og dafni sem mest og best á komandi árum og árum. Því hvetjum við alla lagvissa og glaðværa menn til að ganga til liðs við okkur. Helst getum við bætt við í II tenor og I bassa en auðvitað eru allir góðir söngmenn ávallt velkomnir sama í hvaða rödd þeir eru staðsettir. Félagsskapurinn er léttur og skemmtilegur og hafa myndast einstök og góð vináttubönd meðal okkar kórmanna og maka þeirra og getum við því heilshugar mælt með þessum félagsskap. Margt skemmtilegt er fram undan sem og endranær. Lagaval er fjölbreytt og skemmtilegt og mátulega krefjandi. Áhugasamir geta sett sig í samband við Örlyg Atla, stjórnanda kórsins, í gegnum netfangið orlyguratli@simnet.is eða haft samband við formann kórsins, Sigurð Birgi í gegnum netfangið siggisaem@gmail.com. Örlygur er líka með símanúmerið 834 3677 og Sigurður er með 862 7626.

Eins má mæta beint á fyrstu æfingu haustsins miðvikudaginn 10. september klukkan 19:00 í raddprufur Í Þorlákssetri, en það er salur eldri borgara, önnur hæð fyrir ofan heilsugæsluna í Hveragerði.

Stjórn Karlakórs Hveragerðis

Nýjar fréttir