Hljómsveitin Hr. Eydís og Erna Hrönn hafa nú gefið út nýja föstudagsábreiðu. Að þessu sinni taka þau fyrir eitt þekktasta lag kvikmyndarinnar Pretty Woman, lagið It Must Have Been Love með Roxette.
Lagið á sér áhugaverða sögu. Það kom fyrst út árið 1987 sem jólalag undir heitinu It Must Have Been Love (Christmas For The Broken Hearted) og náði strax miklum vinsældum í Svíþjóð. Þegar Roxette var síðar beðið um að semja lag fyrir kvikmyndina Pretty Woman árið 1990 var dúóiið önnum kafið og sáu þau ekki fram á að semja nýtt lag frá grunni. Því var ákveðið að endurnýta gamla jólalagið, breyta textanum lítillega og setja það í myndina. Útkoman varð risasmellur sem naut gífurlegra vinsælda um allan heim.
„Ég var alltaf mjög hrifinn af Roxette á sínum tíma, enda voru þau sænsk og ég að stórum hluta sleit barnsskónum mínum í Svíþjóð. Maður tengdi því vel við þetta, Per Gessle söngvari hafði líka verið söngvari í vinsælustu sænsku hljómsveitinni, Gyllene tider, sem var gríðarlega heit í Svíþjóð þegar ég var krakki svo þetta var borðleggjandi að myndi hitta í mark hjá mér,“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís.

