Í ár eru fimmtíu ár síðan hópur ungra manna á Selfossi kom saman og stofnaði félagsskapinn JC Selfoss. Aðalhvatamaðurinn að stofnun þess var Þorsteinn Skúli Ásmundsson, þá nýfluttur til Selfoss. Félagið okkar, JC Selfoss, var stofnað 2. mars árið 1975. JC Selfoss var aðili að JC-hreyfingunni á Íslandi sem var stofnuð árið 1959. Á árunum eftir 1967-70 fór aðildarfélögum JC að fjölga og störfuðu þá á Íslandi um 24 félög, þá í öllum landshlutum. Á tímabili voru félagsmenn í JC-hreyfingunni á Íslandi yfir eitt þúsund, bæði konur og karlar með ólíkar skoðanir. Á fyrstu árum JC Selfoss störfuðu eingöngu karlmenn en með öflugan kvennaklúbb sér við hlið. Á árunum 1981 til 82 urðu þáttaskil í félaginu, var þá konum boðin full aðild að félaginu. Með þeirri breytingu fjölgaði verulega í félaginu og fór fjöldi félagsmanna vel yfir eitt hundrað. Skilaði þessi breyting sér strax með kraftmiklu og fjölbreyttu starfi sem gerði JC Selfoss að einu öflugasta JC-félagi á Íslandi. Markmið JC-hreyfingarinnar var að þjálfa fólk í hinum ýmsu verkefnum sem byggði á því að bæta þekkingu og þroska. Haldin voru námskeið og gerð verkefni sem þjálfuðu fólk í skipulagi og framkvæmd. Að takast á við að stýra og stjórna félagi eða nefndum var áskorun sem hver og einn fékk þar sem kosið var til eins árs í senn. Það er alveg hægt að fullyrða og halda því fram, á þeim tíma, að þetta hafi verið einn öflugasti félagsmálaskóli landsins.
JC Selfoss hélt fjögur landsþing JC-hreyfingarinnar á Íslandi þar sem nokkur hundruð fulltrúar komu saman alls staðar af landinu. Fyrsta þingið var haldið á Laugarvatni árið 1977, næsta var á Selfossi árið 1982 og aftur á Selfossi 1987. Síðan var þing haldið á Selfossi töluvert síðar eða árið 2002. Öll þessi þing vöktu mikla athygli fyrir góða skipulagningu og skemmtilega samveru. JC Selfoss fékk margvíslegar viðurkenningar fyrir vel unnin störf eins og byggðarlagsverkefni sem var að vekja athygli á brunavörnum á heimilum fólks. JC Selfoss tók virkan þátt í ræðukeppnum hreyfingarinnar, bæði einstaklinga og ræðuliða, með góðum árangri. JC Selfoss átti fulltrúa í landsstjórn hreyfingarinnar, árið 1979 var Haukur Arnarr Gíslason kosinn landsforseti, sama ár var Valdimar Bragason kosinn landsritari, árið 1983 var Björn Inga Gíslason kosinn varalandsforseti og árið 1995 var Jens Uwe Friðriksson kosinn varalandsforseti. JC Selfoss var félagsskapur sem hafði mikil áhrif á marga þætti í okkar samfélagi. Félag sem skilað hefur mörgum góðum einstaklingum til samfélagsins.
Á undanförnum vikum hafa nokkrir félagar verið að vinna að undirbúningi tímamótanna þar sem ákveðið er að halda samkomu í Hótel Selfoss laugardaginn 20. september kl. 19.30 á góðum JC kjörum. Allir félagar í JC Selfoss og makar þeirra eru hjartanlega velkomnir á 50 ára afmælishátíðina. Tilkynna verður um þátttöku fyrir 10. sept. á netfangið uwe@simnet.is. Kæru JC-félagar, komum saman og rifjum upp gömlu góðu JC-árin.




