Um miðjan ágúst opnaði ný deild á Selfossi undir heitinu Bráðalyflækningadeild (BLD). Deildin er 8 rúma gæsludeild staðsett við bráðamóttöku (BMT) Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og er ætluð sjúklingum með bráðan heilsuvanda sem að mestu fellur undir lyflækningar og tengdar undirsérgreinar.
Deildin tekur á móti sjúklingum frá bráðamóttöku (BMT) sem þurfa heilbrigðisþjónustu sem ekki er veitt á bráðamóttökunni og líklegt er að taki lengri tíma en 24 klukkustundir. Mikilvægt er að sjúklingar sem innlagðir eru á BLD falli innan þeirrar sérhæfingar og þjónustustigs sem HSU getur veitt.
Markmið og áherslur
Áhersla BLD er að veita skjóta, góða og skilvirka þjónustu fyrir alla helstu bráðaheilsuvanda innan lyflæknisfræðinnar á sama tíma og öryggis skjólstæðinga HSU er gætt. Markmið deildarinnar er að draga úr legutíma sjúklinga á sjúkrastofnun og stuðla að því að útskrift geti farið fram í viðeigandi úrræði eins fljótt og mögulegt er.
Samvinna og sérnámsþjálfun
Á bráðalyflækningadeild starfar eitt læknateymi, sem samanstendur af einum sérfræðilækni og einum unglækni, almennt sérnámsgrunnslækni (SGL). Unglæknirinn kemur til HSU í formlega námsstöðu í bráðalækningum samkvæmt viðeigandi marklýsingu. Slík námsstaða hefur hingað til einungis verið í boði á heilsugæslustöðvum stofnunarinnar og því er þetta nýtt tækifæri fyrir læknanema til að öðlast reynslu á sjúkrahúsum í bráðalækningum innan HSU.
Helgi Hafsteinn Helgason, yfirlæknir lyflækna, hefur staðið að undirbúningi opnunarinnar og segir um mönnunina:
„Læknamönnunin kemur frá lyflækningadeild á dagvakt og samanstendur af einum námslækni í sérnámsgrunni og einum sérfræðingi. Utan dagvinnu sinna læknar bráðamóttökunnar deildinni. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sinna sjúklingum á BLD ásamt öðrum sjúklingum á bráðamóttökunni. Þá vil ég einnig nefna mikilvægi aðkomu sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa til að stytta legutíma og koma fólki fyrr á fætur.“
Opnun deildarinnar er samvinnuverkefni margra og endurspeglar þétt samstarf starfsfólks HSU.

Ljómsynd: HSU
Endurbætur á bráðamóttöku og nýr búnaður
Í febrúar hófust umfangsmiklar endurbætur á bráðamóttöku HSU á Selfossi með það að markmiði að bæta aðstöðu, auka öryggi og efla þjónustu.
Stofnunin hefur jafnframt fjárfest í nýjum búnaði fyrir deildina, þar á meðal hraðveiruleitarvél. Helgi Hafsteinn segir:
„Hingað til hafa sýni verið send til Reykjavíkur og niðurstöður tekið 24–36 klukkustundir, en með nýja tækinu liggja niðurstöður fyrir innan 3 klukkustunda. Með nýja tækinu er þá hægt að ljúka einangrun hjá þeim sem ekki þurfa slíka fyrr en ella.“
Vélin mun nýtast vel til að bæði styrkja faglegt starf og tryggja öryggi sjúklinga.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands óskar öllum þeim sem unnið hafa að opnun deildarinnar innilega til hamingju með áfangann.

