Bókabæirnir austanfjalls og Haustgildi –
Stolica Języka Polskiego/Polish Language Capital Festival
Það er pólskur bær í suðaustur-Póllandi sem heitir því þjála nafni Szczebrzeszyn. Nafnið er tungubrjótur fyrir Pólverja svo að skiljanlega er nafnið munnfylli og vel það í íslenskum munni. Þessi fimi sem framburður á nafni bæjarins fer fram á er hins vegar ein megin ástæðan fyrir því að þar hefur verið haldin seinustu tíu ár einhver magnaðasta bókmenntahátíð sem undirrituð hefur heimsótt, þótt við tölum enga pólsku. Bærinn er líka höfuðborg pólskrar tungu.
Hátíðin var stofnuð fyrir tíu árum síðan og hugmyndafræði hátíðarinnar kemur greinilega fram í skipulagningu og viðburðum sem eru í boði. Það er ekki bara ástríða fyrir bókmenntum og skrifuðu máli heldur líka tungumálið og blæbrigði þess í daglegri umræðu. Að með því að lesa og fjalla um bókmenntir þá sé líka verið að fjalla um hversdagsleg samskipti, dagleg umræða og að bæta þá umræðu og kunna betur að meta fjölbreytni sem býr í samfélaginu og endurspeglast í tungumálinu og bókmenntum. Hátíðin hefur farið stækkandi seinustu ár og er nú ein stærsta bókmenntahátíð í Póllandi.

Ljósmynd: Aðsend
Fjöldi manns kemur að skipulagningu og undirbúningi og hátíðin fær mikla umfjöllun í öllum helstu miðlum Póllands og heldur úti sinni eigin YouTube-rás með upplestrum og viðtölum í tengslum við hátíðina. Helsti upphafsmaður hátíðarinnar er Piotr Duda sem kemur frá Szczebreszyn og hann er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Þau eru nú að þróa hugmyndina á bakvið hátíðina enn frekar og leita til samstarfsaðila til að vinna með.
Magda Krasowska-Igras starfar fyrir hátíðina og hafði samband við Bókabæina austanfjalls fyrir hönd stjórnar hátíðarinnar. Þau hafa mikinn áhuga á að mynda tengsl við Bókabæina hér á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Til að hefja það samstarf fóru Pétur Már Guðmundsson og Jónína Sigurjónsdóttir og heimsóttu hátíðina dagana 4. -7. ágúst. Bærinn er fallegur og vinalegur og aðstaða hátíðarinnar og umhverfið einstaklega fallegt. Þeim sem standa að hátíðinni hafa líka tekist mjög vel að koma sér fyrir í þessum skógarlundi þar sem hún er haldin.
Samstarf Bókabæjarins og hátíðarinnar hefur mikla möguleika. Haustgildi er uppskeruhátíð á Stokkseyri sem hefur verið haldin seinustu fimm ár og býður til sín fjölda rithöfunda á hverju ári. Auk þess að bjóða upp á tónlist og framleiðslu úr nágrenninu hefur Haustgildi seinustu ár orðið að bókmenntahátíð Bókabæjanna austanfjalls. Heimsóknir höfunda á þá staði sem myndu taka þátt í samstarfinu koma strax upp í hugann. Þannig kæmu pólskir höfundar í heimsókn á Haustgildi strax á næsta ári en samstarfið hefur líka fjölmarga aðra möguleika. Tungumálið sjálft er sem dæmi ofarlega í huga allra sem koma að þessu. Það væri líka kærkomið að Pólverjar sem búa á Íslandi gætu séð og heyrt pólska höfunda lesa upp á Stokkseyri.
Nú verður hafist handa við að mynda tengsl við bókabæinn Fjærland í Noregi til að fá þau um borð. En þetta samstarf mun hafa mikla þýðingu fyrir Bókabæina austanfjalls og Haustgildi. Ávinningurinn er líka mikill fyrir nærumhverfið og nágranna sveitarfélög Árborgar og bókmenntastarfsemi á svæðinu. Tengja saman menningarheima og læra inn á blæbrigði annarra tungumála og hlýða á skemmtilegar sögur.
Pétur Már Guðmundsson og Jónína Sigurjónsdóttir

