Tómas Albertsson rekur safnið Kukklerí-ið við Þykkvaflöt á Eyrarbakka. Safnið inniheldur ýmiss konar fjársjóð, líkt og rúnir, galdrastafi og bækur um hina miklu brennuöld á Íslandi. Það var ansi gaman að kíkja við á safnið síðasta sunnudag, veðrið var hæglátt, hrafninn tók á móti mér við innganginn og Tómas var tilbúinn að leiða mig í gegnum aldirnar með sögulegum staðreyndum frá fornöld Íslendinga.
„Það er merkilega mikið efni til frá 18. öldinni,“ segir Tómas mér en elsta galdrabókin sem hann geymir er frá árinu 1706 sem geymir ýmsa leyndardóma. Það er margt hægt að skoða á safninu og ekki bara gráskinnur sem geyma galdra og rúnarstafi heldur einnig keramikbolla og platta sem hannaðir voru fyrir fáeinum árum af fyrirtækinu Glit sem merktir eru galdrastöfum. Þeir eru einkar vandaðir á að líta en einungis til í litlu upplagi þar sem sú færa kona sem framleiddi þá er hætt þeirri vinnu.

Ljósmynd: Logo
Á safninu er að líta Íslandskort með sagnfræðilegu samhengi frá brennuöldinni. Þar er hægt að sjá tengingar landshluta á milli þegar kemur að göldrum og fólksins sem þá stundaði.
Tarot-spil og spábollar eru til þar af mörgum stærðum og gerðum, mikið safn af öllu sem tengist hjátrú og hindurvitnum sem tengist inn á fornlagatrú Íslendinga og mikið verðmæti í því að varðveita sögulegar rætur okkar á þennan máta þar sem sú trú var stór partur af lífi okkar í þá daga.
„Stefnan er tekin á annað húsnæði fyrir safnið svo ef einhver er með góða hugmynd að nýrri staðsetningu fyrir Kukklerí-ið þá er ég opinn fyrir flestu,“ segir Tómas með bros á vör.
„Það má segja að vanti alvöru ferðamannaverslun inni á Selfossi, vissulega margar flottar búðir en einhverja í líkingu við Kukklerí-ið sem geymir ýmsan fróðleik bæði um land og þjóð. Eitthvað sem heldur ferðamanninum við efnið svo hann staldri lengur við og fái tilfinningu fyrir þeim sérstöku rótum okkar Íslendinga, þeirri sem felst í hjátrú og forlagaspeki. Mig langar að halda minni sýningar sem tengjast inn á söfn og verslanir inni á Selfossi, það er eitthvað sem á eftir að vinda upp á sig en eins og er þá einbeiti ég mér eingöngu að Kukkleríinu og að finna því nýja staðsetningu,“ segir Tómas að lokum hugsi á svip.
Það er ekki langt síðan safnið opnaði en það var í byrjun sumars. Safnið hefur stækkað umtalsvert á stuttum tíma og alltaf bætist við eitthvað nýtt og fróðlegt svo enginn verður svikinn af því að kíkja þar við í kaffi.
S.C

