2.9 C
Selfoss

Torfdagurinn haldinn hátíðlegur

Vinsælast

Torfdagurinn er hugsaður sem árleg hátíð og samráðsvettvangur áhugafólks á öllum aldri um aldagamlan íslenskan byggingararf og jafnframt vettvangur til að kveikja áhuga og nýsköpun á þessu sviði, sem hefur óþrjótandi möguleika.

Megináhersla Torfdagsins árið 2025 er sem fyrr handverk, fagurfræði og djúpar rætur sem lúta að sérstöðu og menningararfi sem þrátt fyrir firringu og jaðarsetningu býr yfir óþrjótandi möguleikum, þar sem aflvakinn er hugmyndaflug, einlægur áhugi, áunninn skilningur, nýtt samhengi, nærvera, bein snerting, virðing og agi. Á dagskrá verður stunga á Eyjafjallasniddu og rista á kringlutorfi sem lagt verður á kofaþak. Fyrirlestur verður um stærsta uppistandandi torf- og grjótvegg á Íslandi. Hefðbundin verkfæri og torfhnausar verða til sýnis og handbók um hleðslutækni liggur frammi til skoðunar. Síðast en ekki síst verður leikandi teiknilist og myndræn skilgreining á einstakri formfræði í aldgamalli matarmenningu höfð í frammi.

Megináherslan á Torfdeginum þetta árið verður náfrændi mýraratorfsins, í rauninni eitt mikilvægasta eldsneytið að baki árangursríkri torfristu og veggjahleðslu, herti þroskhausinn. Ekki er seinna vænna að kalla herta þorskhausinn fram á sviðið og gera honum skil í orðum, formfræði, handverki og sem fulltrúa háþróaðrar matarmenningar og lífsstíls. Þann 30. ágúst eru allir þeir sem haft hafa kynni af, eða vilja kynnast, bjöllunni, koddanum, bóginum, kellingasvuntunni, skollaskyrpunni, krummafiskinum, kjaftafiskinum, kinnfisknum, undirfisknum, baulunni og auganu, boðnir velkomnir á Torfdaginn í safnahúsi Íslenska bæjarins að Austur-Meðalholtum í Flóahreppi. Hér er í senn um að ræða heimildaöflun um einstakan arf, skemmtun, upplifun og smökkun. Við nánari skoðun er ekki langt á milli þess að rífa þorskhaus og rista torf, enda samhljómur og skyldleiki með hnaus og sniddu, torfsnepli, dæludúllu, mýrarkóng, bjöllu, bóg og kodda, af sömu djúpu rótunum runnin og hluti af sömu sviðsmyndinni.

Á borðum verður kaffi og grasate, kleinur, súkkulaðifuglar, torfsúkkulaði, langspilsleikur, ljóðalestur, leirmótun og teikning; og þann 30. ágúst 2025 mun torffuglinn koma út úr eggingu og taka flugið í fyrsta skipti.

Nýjar fréttir