Elín Hrönn hefur sótt tvíburahátíð í Bandaríkjunum síðustu árin og nú í fimmta sinn. Hún og systir hennar, Hrefna Ósk, fóru fyrst 2018 og hafa farið síðastliðin 3 ár. Hátíðin er haldin í Twinsburg Ohiao, en það voru tvíburar sem námu þennan bæ og ákváðu nafnið í kjölfarið. Í tilefni af fimmtugustu hátíðinni langaði þær stöllur að gera meira úr þessu og tóku foreldrana með. Einnig tvíburana, Hafstein og Kristján Valdimarssyni, svo þetta var hópferð og ótrúlega skemmtilegt.

Ljósmynd: Aðsend
„Var gert eitthvað öðruvísi vegna afmælisins?“ Elín verður hugsi og rifjar upp atburði helgarinnar.
„Það var heljarinnar sýning og svo var saga hátíðarinnar rifjuð upp. Við mættum á föstudegi og þá er skráning fyrir alla þá fjölbura sem eru þátttakendur á hátíðinni. Það eru myndatökur sem eru ansi vinsælar þar sem er voða gaman að smella af myndum af tvíburum og hvað þá fjölburum. Fólk er að hittast, sumir í fyrsta sinn en aðrir fagna gömlum kynnum. Margir mæta frá Kína, Ástralíu og Kenía, svo fólkið kemur langt að.“

Ljósmynd: Aðsend
Það er alltaf eitthvað þema en í þetta sinn mátti velja sér það sem hafði verið síðustu fimmtíu ár og þær systur völdu ævintýraþema. Í ár voru þær systur, Anna og Elsa úr frægu myndinni Frozen, sem er jú afar vinsælt hjá ungviðinu og sér í lagi í skrúðgöngunni sem ávallt er farin. Skrúðgangan endar síðan á hátíðarsvæðinu þar sem eru alls konar keppnir. Það er keppt í líkustu tvíburunum sem og ólíkustu, bæði elstu og yngstu tvíburunum. Einnig er haldin hæfileikakeppni. Það var því mikið gert úr þessari hátíð, matarvagnar og sölubásar voru á staðnum og mikil gleði var við völd á svæðinu.
„Það ríkir mikil samheldni og hefur verið gaman að kynnast fólki og mynda tengsl jafnvel út lífið,“ segir Elín með bros á vör.
„Þær keppnir sem eru haldnar eru til dæmis hlaup og ég varð í fyrsta sæti í mínum flokki. Við tókum einnig þátt í blakmóti með Hafsteini og Kristjáni. Þar sem þeir eru landsliðsmenn í blaki þá unnum við að sjálfsögðu mótið. Elín kom því heim með bikar fyrir blakíþrótt þrátt fyrir að hafa aldrei æft það sport.“

Mynd: Aðsend
„Ég hef aldrei unnið bikar fyrir neitt annað en blak sem er fyndið þar sem ég spilaði badminton og fótbolta í mörg ár,“ segir hún skælbrosandi. Það geislar af henni gleðin og hún ætlar sér svo sannarlega að fara aftur á þessa hátíð.
„Ég fer þangað til ég kemst ekki meir, það er ekki bara hátíðin sem ég sækist í heldur félagsskapurinn. Fólkið skilur hvað maður er að ganga í gegnum sem eineggja tvíburi,“ bætir hún við angurvær á svip.

Ljósmynd: Aðsend
„Þetta er það besta sem ég veit!“ Eru svo lokaorðin og hún eflaust farin að láta sig dreyma um næstu hátíð sem haldin verður að ári.
S.C

