3.5 C
Selfoss

Startup-landið! Ertu með hugmynd sem þú trúir á?

Vinsælast

Það þarf ekki stórt skrifborð eða flókið umhverfi til að góð hugmynd fæðist – oft dugar eldhúsborðið. Spurningin sem brennur á mörgum er hins vegar: hvernig breytir maður hugmynd í raunverulegan rekstur? Í haust verður frumkvöðlum utan höfuðborgarsvæðisins boðið að stíga fyrsta skrefið í nýju verkefni sem nefnist Startup Landið.

Startup Landið – viðskiptahraðall landshlutasamtakanna – fer af stað í haust og umsóknarfresturinn er til 31. ágúst.

En hvað er eiginlega viðskiptahraðall?

Viðskiptahraðall (eða nýsköpunarhraðall) er tímabundið verkefni þar sem einstaklingar með áhugaverðar og frumlegar hugmyndir fá stuðning og leiðsögn til að þróa þær áfram. Það getur verið allt frá hugmynd á blaði yfir í raunverulegt fyrirtæki eða verkefni með rekstrarform. Hraðallinn hjálpar þér að skoða hvort hugmyndin standist, hvort hún geti skapað tekjur, sparnað eða jafnvel ný störf.

Hvernig virkar þetta?

Í Startup Landinu koma saman frumkvöðlar alls staðar að af landinu. Þau fá tækifæri til að læra hvert af öðru – og ekki síður af reyndum frumkvöðlum sem hafa sjálf gengið í gegnum það ferli að umbreyta hugmynd í árangursríkt fyrirtæki.

Þátttakendur sækja vinnustofur, fá handleiðslu frá mentorum á viðkomandi sviðum og taka þátt í fræðslu sem snýr að því að móta hugmynd, þróa hana og koma henni á framfæri – hvort sem það er í formi sölu, þjónustu eða fjárfestaleitar.

Hraðallinn hefst 18. september og eru rafrænar vinnustofur 2x í viku, 3 tíma í senn í 6 vikur.

Staðlota verður haldin á Suðurlandi dagana 25. og 26. september – þar hittast öll teymi í eigin persónu. Ferðakostnaður er niðurgreiddur og öll þátttaka, gisting, matur og fræðsla er án kostnaðar
Hraðlinum lýkur með fjárfestahátíð í Hofi á Akureyri síðustu vikuna í október – þar fá teymin að kynna hugmyndir sínar á sviði og hlýtur ein hugmynd verðlaun í formi áframhaldandi stuðnings landshlutasamtakanna.

Fyrir hverja?

Startup Landið er ætlað frumkvöðlum búsettum utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig ef þú ert búsett/ur á Suðurlandi, þá getur þú sótt um að vera annað tveggja hugmynda sem kemst áfram í hraðalinn fyrir hönd landshlutans.

Þeim sunnlensku teymum sem taka þátt býðst vinnuaðstaða í nýsköpunarsetri Háskólafélags Suðurlands endurgjaldslaust meðan á hraðlinum stendur.

Nýjar fréttir