2.9 C
Selfoss

30 ára afmæli Blómstrandi daga í Hveragerði

Vinsælast

Blómstrandi dagar voru haldnir í Hveragerði um síðustu helgi og var glæsibragur yfir hátíðinni enda um 30 ára stórafmæli að ræða. Dagskráin var þétt og frá 14.-17. ágúst var hægt að finna eitthvað við allra hæfi, má þar nefna Sycamore Tree sem tók lagið í kirkjunni, Daða Frey sem brýndi raustina í íþróttahúsinu og Tenor-tónleikar voru haldnir til styrktar Arnari Gísla til frekara tónlistarnáms.

Arnar Gísli tenór
Ljósmynd: Sandra.C

Best hirtu garðarnir voru verðlaunaðir, listasýningar og sölubásar settu einnig lit sinn á hátíðina. Fólk var metnaðarfullt í því að lífga upp á bæði hús og garða; þar mátti sjá mikinn húmor í þeim skreytingum sem og fegurð í blómstrandi gróðrinum.

Skreytingar
Mynd: Sandra.C

Börnin fengu ýmislegt fyrir sinn snúð þar sem tívolí var í bænum og leikhópurinn Lotta lék á als oddi í listigarðinum. Ekki má svo gleyma stóra Kjörísdeginum sem aldrei klikkar. Þar var margt um manninn og allskyns ís í boði líkt og ávallt.

Gleðin var við völd
Ljósmynd: Sandra.C

Fólk flykktist hvaðanæva að til Hveragerðis til þess að smakka á hinum ýmsu tegundum. Furðuísinn sló í gegn og þeir sem vildu halda sér við hollustuna gátu gætt sér á sykurlausum jógúrtís við leikandi tóna sem hljómuðu þar frá sviðinu. Tónlistaratriðin voru ekki af verri endanum en hljómsveitir á borð við Koppafeiti og Slysh sem koma báðar frá blómabænum Hveragerði sýndu listir sínar.

Hljómsveitin Slysh
Ljósmynd: Sandra.C

Áherslan var sú að flest það listafólk sem fram kom á hátíðinni ætti búsetu þar í bænum. Nokkrir gestir komu þó við og kættu lýðinn. Ice guys slógu í gegn með ísnum sínum og Emmsjé Gauti gladdi yngri kynslóðina með lögum sem flestir gátu sungið með.

Kjörísstelpur
Ljósmynd: Sandra.C

Gleðin var því ríkjandi frá morgni til kvölds og þurfti að velja vel hvað fólk vildi sjá og skoða til þess að komast yfir sem flest af dagskránni. Hjálparsveit skáta varð 50 ára og var opið hús í tilefni af þeim áfanga. Má segja að hápunktur hátíðarinnar hafi svo verið brekkusöngurinn í Listigarðinum á laugardagskvöldinu og myndast sú hefð að heilu fjölskyldurnar mæti með útilegubúnaðinn og komu sér fyrir á túninu til þess að njóta þeirra atriða sem þar koma fram og flugeldasýningin sem ávallt gleður augað lýsti upp himininn í lok kvöldsins.

Brekkusöngur
Ljósmynd: Sandra.C

Nýjar fréttir