5.5 C
Selfoss

Roastbeef opna með heimagerðu remúlaði og steiktum lauk

Vinsælast

Björgvin Magnússon er matgæðingur vikunnar.

Takk Helga Guðrún fyrir tilnefninguna, fín myndin af ykkur systrunum, ég er reyndar meira fyrir að borða mat en að elda, er að vísu með meirapróf í að sjóða kartöflur, og talandi um þær, þá mæli ég með því að borða mikið af þeim og sérstaklega þegar þær eru nýjar, með smá salti og mikið af smjöri.

Það sem ég ætla hins vegar að bjóða upp á í þessari viku er roastbeef opna fyrir ca 8 svanga úlfa, með heimgerðu remúlaði og djúpsteiktum lauk.

Það er gott að byrja á að hægelda ca 500 grömm af nautafillet, krydda með nýmöluðum pipar og maldon salti eftir eldun. Látið hvíla vel og sneiðið þunnt.

Remúlaðið er mikilvægur partur af öllu ferlinu, auðvitað er hægt að kaupa tilbúið en það verður aldrei jafn gott, og að gera sitt eigið er tiltölulega auðvelt og hægt að gera með alls konar twisti eftir því með hverju á að nota það.

½ dós sýrður rjómi og jafn mikið af majónesi, 1 ½ matskeið af gúrkurelish, 1 teskeið dijon sinnep, ½ teskeið karrý og salt og pipar eftir smekk, í þessu tilfelli finnst mér mjög gott að setja 1 teskeið af mangó cutney til að fá smá sætu.

Nú fer að líða að því að raða saman. Takið sneið af sólkjarnabrauði eða einhverju góðu, þunnu brauði og ristið í stutta stund, smyrjið með smjöri og remúlaðinu. Ofan á þetta er lagt eitt blað af Lambhagasallati, svo nautasneiðar, aðeins meira remúlaði og því næst steiktur laukur ( einn laukur, þunnt sneiddur, settur í poka ásamt hveiti, salti og pipar, því næst steiktur í vel heitri olíu sem flýtur yfir laukinn), súrar gúrkur eru algjört möst og svo má skreyta með einhverjum skemmtilegum spírum, extra gott að hafa stökkar, sterkar kartöfluflögur og sáldra yfir og svo aðeins meira remúlaði. Með þessu drekkum við ískalda Coke því eins og allir vita gerir Coke allan mat betri (varist eftirlíkingar).

Ég ætla að skora á Ómar Baldursson að koma með næstu uppskrift en Ómar er á barmi þess að verða heimsfrægur fyrir bearnaise-sósuna sem hann gerir.

Nýjar fréttir