Sandra Clausen hefur verið ráðin sem nýr blaðamaður hjá Dagskránni og hefur hún nú þegar hafið störf. Sandra er fædd og uppalin á Akureyri en er búsett á Selfossi. Hún er með burtfararpróf í grafískri miðlun og diploma í forritun. Einnig er hún lærður heilsunuddari og dáleiðari en starfar nú aðallega sem rithöfundur meðfram blaðamennsku.
„Ég er afar þakklát því að vera veitt þetta tækifæri að sinna fréttaflutningi hér sunnan heiða,“segir Sandra sem hefur unun af mannlegum samskiptum og getur vart beðið eftir að nýta þann styrkleika í starfinu.
Ritstjóri Dagskrárinnar, Elín Hrönn Jónsdóttir, lætur af störfum hjá fjölmiðlunum í ágúst og þökkum við henni kærlega fyrir hennar störf og gott samstarf.
Björgvin Rúnar Valentínusson, útibússtjóri Prentmets Odda á Selfossi, rekstraraðili Dagskrárinnar, kemur til með að hugsa tímabundið um ritstjórn Dagskrárinnar og DFS.is.

