JAE ehf. hefur gengið frá kaupum á Hótel South Coast, sem er nýlegt, stórglæsilegt hótel staðsett í miðbæ Selfoss. Hótel South Coast er vandað með 74 herbergjum, veitingaaðstöðu, heilsulind, líkamsræktaraðstöðu og fundarrýmum, sem gerir það að eftirsóttum ferðamannastað á Suðurlandi. Með þessum kaupum styrkir JAE ehf. stöðu sína verulega á sunnlenska ferðamarkaðnum. JAE ehf. rekur nú þegar Hótel Selfoss og Hótel Vestmannaeyjar, ásamt fasteignum sem tengjast þeim rekstri. Um er að ræða hótelstarfsemi með samtals yfir 300 herbergi á Suðurlandi. Auk þess leigir JAE út íbúðir og einbýlishús í Vestmannaeyjum, sem hluta af starfsemi sinni. Með þessum nýju kaupum nemur heildarfermetrafjöldi fasteigna í eigu félagsins um 16.000 fermetrum. Björgvin Jóhannesson, hótelstjóri Hótel Selfoss mun einnig verða hótelstjóri fyrir Hótel South Coast. „Þessi kaup eru í samræmi við trú eigenda á því að ferðaþjónustan á Suðurlandi muni halda áfram að styrkjast á komandi árum,“ segir Aðalsteinn Jónsson Þorsteinsson, einn eigenda. „Við munum áfram leita tækifæra á þessu svæði sem styðja við langtímaáætlanir okkar og vöxt.“

