Hallur Halldórsson og Petra eiginkona hans hafa haldið við þeirri hefð að grilla saman og efla það smáa samfélag fólks sem hefur búsetu ofan Ölfusár. Sú hefð hefur nú verið við lýði í yfir 20 ár en Kjartan Björnsson var driffjöður hennar.
„Við fórum í skrúðgöngu um hverfið og gróðursettum tré í litlum lundi þar sem nú er fótboltavöllur. Fólk kynntist hvert öðru vel innbyrðis og þetta skapaði góða stemmingu,” segir Hallur þar sem hann stendur við tjald sem reist hefur verið á miðju túni þar í hverfinu. Það bregður fyrir vissu bliki í augum hans við gamlar endurminningar sem eflaust ilja hjartað.
Hugsunin er að styrkja þetta smáa samfélag hinum megin við brúnna og bæði þau sem brottflutt eru eiga það til að mæta í grillið og þau sem bæst hafa í hópinn finna sig meira á heimavelli. Það var í blíðviðri sem viðtalið var tekið, krakkar nutu sín á hoppubelg sem blásinn var upp á túninu við tjöldin og grillað þar síðar um kvöldið. Margar hendur vinna létt verk og fólk hjálpast að við þessa hátíð sem nú er farin að marka vissan svip á sumarið.

