Það hlaut að koma að því. Í gær gerðist nokkuð sem við höfum óttast undanfarið, eftir óteljandi dæmi um óskiljanlega hegðun of margra kylfinga.
Í gær varð vallarstarfsmaður fyrir bolta eftir högg kylfings sem mátti vel vita að hann væri að setja tvo starfsmenn í hættu. Varla hefði þurft að bíða lengur en í um fimm sekúndur til að gæta viðunandi öryggis.
Flest bendir til að boltinn hafi lent á starfsmanninum án viðkomu í jörðu og höggið því þungt. Aðeins munaði fáeinum sentimetrum að boltinn hafnaði á höfði viðkomandi.
Ekkert viðvörunarhróp heyrðist og engin tilraun var gerð til að kanna eða spyrja um ástand starfsmannsins.
Nú í sumar eru aðstæður um margt sérstakar. Við erum undirmönnuð á velli svo um munar, til að skapa svigrúm fyrir stórar fjárfestingar í sjálfvirkum sláttuvélum á sólarorku. Um leið hefur viðhaldsþörf aukist tímabundið vegna átaks í endurræktun brauta, með mikilli grassprettu.
Vallarstarfsmenn, aðrir en vallarstjóri sem einnig sinnir öðrum störfum fyrir klúbbinn, eru aðeins fjórir og er enginn þeirra eldri en 17 ára. Ekkert þeirra hafði unnið á golfvelli fyrr en nú snemmsumars og eru þau að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Þau byrja kl. 7 á morgnana, hafa oft unnið langa daga, í öllum veðrum, og hafa farið langt framúr væntingum.
Sú vanvirðing sem þeim er ítrekað sýnd úti á velli er með ólíkindum. Í gær var bolti einnig sleginn inn á flöt sem starfsmaður var að slá. Það hefur gerst áður og bolti m.a.s. farið í vél sem starfsmaður ók, svo lán varð að ekki varð líkamstjón og sláttuvalsar skemmdust lítið sem ekkert.
Fyrir nokkrum vikum þurfti starfsmaður að beygja sig bakvið vinnutæki við enda æfingasvæðisins til að verða ekki fyrir höggum þegar kylfingur ákváð þá einmitt að slá högg af þeirri lengd.
Rótgróin venja (eða viðmið réttar sagt, því of fáir fara eftir því til að kalla venju), er að vallarstarfsmenn eigi réttinn. Við reynum að leiðbeina þeim þannig að þau komist yfir verkefni sín um leið og þau sýni kylfingunum, þ.e. félögum og viðskiptavinum sem borga launin okkar, tillitssemi.
Starfsmaðurinn sjálfur ákveður hvenær hann gerir hlé á vinnu sinni, færir sig til hliðar og gefur merki um að óhætt sé að slá. Nú má vel vera að starfsmaður, hvað þá ungur og lítt reyndur, gleymi sér og gái ekki nógu oft að umferð í kringum sig, að mati hinna bíðandi kylfinga.
Líklegt má þó telja að biðin sé almennt styttri og mun sjaldgæfari en biðin eftir ráshópnum á undan, eins og oft vill verða. Ekki sláum við þá? Er þá í lagi að slá vísvitandi á vallarstarfsmann?
Golfhreyfingin og kylfingar á Íslandi hafa beina hagsmuni af því að gera golfvallaumsjón að aðlaðandi starfi meðal ungs fólks. Tækifærin eru til staðar. Unnið er með hugbúnað, nýjustu tækni og gögn í ríkari mæli og vinnutíminn getur orðið fjölskylduvænni með meiri sjálfvirkni.
Samt hefur lítil nýliðun ollið ákveðnum vonbrigðum. Okkur sárvantar öflugt ungt fólk sem vill veðja á þennan starfsvettvang og hella sér út í fræðin af alvöru, ef við eigum að halda áfram að bæta vellina og standa vörð um hagsmuni golfíþróttarinnar í síbreytilegu samfélagi með harðnandi samkeppni um land, auðlindir og tíma fólks.
Með framangreint í huga, en fyrst og fremst með öryggi og velferð starfsfólks í huga, hefur Golfklúbbur Þorlákshafnar ákveðið að hefja vinnu við mótun málsmeðferðar og viðurlaga við háskaleik sem þessum.
Virðingarfyllst,
Edwin Roald,
vallarstjóri Þorláksvallar

