Háskólafélag Suðurlands í samstarfi við Háskólann á Bifröst býður núna í haust í fyrsta sinn upp á háskólanám í frumkvöðlastarfi. Námið er hugsað fyrir einstaklinga sem vilja hrinda hugmyndum í framkvæmd, kynnast frumkvöðlaumhverfinu á Íslandi og öðlast færni til að stofna fyrirtæki eða þróa eigin verkefni.
Um er að ræða fjarnám á háskólastigi sem kennt er á ensku og skiptist upp í þrjú námskeið, samtals 18 ECTS einingar. Kennt verður frá 18. ágúst til 30. nóvember 2025. Skráningu lýkur 10. ágúst og flest stéttarfélög veita styrki til þátttakenda.
Á námskeiðunum munu nemendur þróa og móta viðskiptahugmyndir, læra að nýta hönnunarhugsun í nýsköpun, kynnast íslensku sprotaumhverfi og stuðningsúrræðum og öðlast innsýn í fjármögnun og rekstur eigin fyrirtækis. Námið er opið öllum sem hafa stúdentspróf, aðfaranám að háskóla eða sambærilegt nám og vilja tileinka sér hagnýta þekkingu í frumkvöðulsstarfi, nýsköpun og rekstri.
Aðstaða í Háskólafélagi Suðurlands
Til að styðja við nemendur af Suðurlandi sem innrita sig í námið býður Háskólafélag Suðurlands upp á aðstöðu fyrir staðarlotu með kennurum fyrir hvert þriggja námskeiðanna. Loturnar fara fram hjá Háskólafélagi Suðurlands á Selfossi og gefa nemendum tækifæri til beinna samskipta við kennara og samnemendur af Suðurlandi. Gert er ráð fyrir lágmarksfjölda þátttakenda til að staðarlota fari fram.
Að auki veitir Háskólafélagið nemendum einstaklingsmiðaða aðstoð, handleiðslu og ráðgjöf, öllum að kostnaðarlausu, bæði á íslensku eða ensku. Þetta stuðlar að því að nemendur fái viðeigandi tæki og úrræði til að þróa eigin hugmyndir og nýsköpun. Þar gefst tækifæri til að vinna með hugmyndum sínum í skapandi og hagnýtu umhverfi sem byggir á reynslu, tengslum og stuðningi.
Kennarar námsins eru vel þekktir í frumkvöðla- og nýsköpunarumhverfinu:
- Fida Abu Libdeh, stofnandi GeoSilica Iceland
- Arnar Sigurðsson, sérfræðingur í skapandi nýsköpun
- Michael Hendrix, fyrrverandi yfirmaður hjá IDEO í Bandaríkjunum
Markmiðið með náminu er ekki síst að auðvelda þeim sem eru ekki íslenskumælandi að hefja háskólanám, mynda tengsl og öðlast betri innsýn inn í atvinnulífið.
Nánari upplýsingar og skráning: https://hfsu.is/frumkvodlastarf-a-islandi/

