Talsverð uppbygging hefur átt sér stað í íþrótta- og æskulýðsmálum í Rangárþingi ytra á liðnum árum. Birtist þetta bæði í verkefnum sem sveitarfélagið hefur ráðist í og það sem einstaka félagasamtök hafa ráðist í. Sveitarfélagið hefur t.d. ráðist í byggingu glæsilegs íþróttamannvirkis, gervigrasvöllur í fullri stærð sem mun koma til með að efla íþróttastarfið svo um munar. Gervigrasvöllurinn er góð framkvæmd en það getur tæpast verið endastöð, hvað kemur næst?
Ungmennafélagið Hekla er íþrótta- og ungmennafélag sem heldur úti fjölbreyttu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Framboð íþróttagreina hefur verið mismikið milli ára, en tvær greinar hafa verið nokkurs konar „rauður þráður“ í starfi félagsins í nokkra áratugi, það eru frjálsíþróttir og körfubolti. Ef horft er til síðustu 10 ára þá hefur árangur frjálsíþróttastarfsins innan Umf. Heklu á köflum verið lygilegur. Umf. Hekla hefur haldið úti metnaðarfullu frjálsíþróttastarfi og hélt á tímabili úti sameiginlegu keppnisliði Garps/Heklu í frjálsíþróttum.
Frá árinu 2016 hafa frjálsíþróttaiðkendur í Rangárþingi ytra unnið til 105 Íslandsmeistaratitla, sett 6 Íslandsmet og átt 8 fulltrúa í unglingalandsliðum FRÍ (hét áður úrvalshópur). Þetta er svo fyrir utan ótal brons- og silfurverðlaun á Íslandsmótum, bikarmeistaratitla og annan góðan árangur.
Í dag eru frjálsíþróttir 2. fjölmennasta íþróttagreinin innan Umf. Heklu í iðkendum talið og fer stækkandi. Frjálsíþróttir eru eina íþróttin sem iðkuð er allt árið um kring og er sú íþrótt sem iðkendur Umf. Heklu hafa náð mestum árangri í. Félagið heldur frjálsíþróttamót, innan og utanhúss með miklum fjölda keppenda og hefur sóst eftir því að halda stærri mót eins og landsmót UMFÍ 50+.
Það sem gerir árangurinn enn magnaðri er að aðstaða til frjálsíþróttaiðkunar er lítil sem engin í Rangárþingi ytra. Ágæt skref hafa verið stigin til þess að tryggja grunnaðstöðu til bráðabirgða en staðreyndin er sú að ekki er löglegur frjálsíþróttavöllur í Rangárþingi ytra og ekki allri sýslunni ef út í það er farið.
Nú þegar að sér fyrir endann á framkvæmdum við gervigrasvöll á Hellu er það rökrétt næsta skref að á Hellu verði byggður frjálsíþróttavöllur. Ef vel er haldið á spöðunum gæti slíkt verið á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Jarðvegsframkvæmdir gætu þá hafist 2026 og völlurinn litið dagsins ljós árið 2027. Það er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Ef stíga á næsta skref og halda áfram að byggja ofan á þann árangur sem náðst hefur þurfum við að bretta upp ermar. Ungmennafélagið Hekla mun halda áfram sinni uppbyggingu á vettvangi frjálsíþrótta – sveitarfélagið á næsta leik.
Ástþór Jón Ragnheiðarson
Formaður Ungmennafélagsins Heklu og frjálsíþróttaþjálfari

