Skálholtshátíð kallar til sín fólk víða að vegna þess að hún er þriggja daga fjölbreytt og hátíðleg dagskrá. Hún er fyrir alla sem vilja gleðjast í kirkjunni og syngja saman og njóta sín. Hún er um það hvernig við öll erum eitt í Kristi og er það þemað: „Á eina bókina – Eitt í Kristi“. Á dagskrá eru hátíðartónleikar, hátíðarmessa í sól og sumri og hátíðardagskrá þar sem Jón Kalman Stefánsson rithöfundur flytur hátíðarerindið umvafinn tónlist og ávörpum. Á laugardeginum heldur Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar málþing um játningar kirkjunnar í 1700 ár til okkar daga með dr. Dirk G. Lange frá Lútherska heimssambandinu og Skálholtsfélagið heldur málþing um Brynjólf biskup Sveinsson og Ragnheiði á föstudeginum með Ragnheiðargöngu. Einnig eru á dagskrá Forneifaskóli barnanna, ör-pílagrímaganga barnanna á hlaðinu heima og löng pílagrímaganga frá Reynivöllum til Skálholts. Í hátíðarmessunni verður vígður nýr Steinway D konsertflygill, Bókhlaða Skálholts verður opnuð og tekið er við stórri gjöf til minningar um dr. Sigurbjörn biskup Einarsson. Umgjörðin er falleg og kirkjan í einstaklega góðu formi eftir gagngerar endurbætur á síðustu árum. Í kirkjunni er einstakur hljómur og hefur það sannast enn og aftur á Sumartónleikunum í Skálholti sem haldnir voru núna í 50. sinn í þrjár vikur samfellt undir stjórn Benedikts Kristjánssonar. Hljómurinn er nýttur til fulls á hátíðartónleikum laugardagsins með Skálholtskórnum og góðu tónlistarfólki sem Jón Bjarnason, organisti, hefur kallað saman, en einnig á Bach-orgeltónleikum Jóns Bjarnasonar.
Hátíðarmessan með fjölda flytjenda hefst kl. 14 á Þorláksmessu á sumar, sunnudag 20. júlí, og eftir kirkjukaffi í boði staðarins er hátíðardagskrá kl. 16. Kvölds og morgna er sungin tíðargjörð og eru það félagar í Ísleifsreglunni sem leiða hana. Á laugardagsmorgninum kl. 9 er gengið til útimessu við Þorklákssæti. Þar er lesið úr Ritningunni og gengið til altaris og þar setur vígslubiskup, sr. Kristján Björnsson, hátíðina. Skálholtshátíð er slitið í lok hátíðardagskrár sunnudagsins og þau sem vilja safnast svo saman að syngja Te Deum upp við háaltarið. Rétt er að minna einnig á göngustígana á Þorláksleið.
Hátíðin er árlega haldin í nánd við Þorláksmessu á sumar sem hefur verið 20. júlí frá því um 1200 en þann dag 1198 voru bein Þorláks tekin upp og lögð í hið sögufræga Þorláksskrín. Um aldir var hún stærsta hátíð ársins og fjölsótt. Hún kemur fyrir í nýjum og gömlum bókmenntum vegna atburða sem áttu sér stað einsog við er að búast þegar margir koma saman á helgum stað og fagna.
Sjálfsagt þykir að sækja einn og einn viðburð í dagskránni. Aðgangseyrir er enginn og allir velkomnir. Alla dagskrá og viðburði er að finna á skalholt.is.
Skálholt

