2.9 C
Selfoss

Sundurliðað kjúklingasalat fyrir matvanda

Vinsælast

Bjarni Kristinn Gunnarsson er matgæðingur vikunnar.

Ég þakka falleg orð í minn garð frá Dr. Birgi Guðmundssyni, og mun gera það sem ég get til að reynast ekki eftirbátur hans í eldhúsinu. Ég ætla að bjóða upp á rétt sem ég kýs að kalla sundurliðað kjúklingasalat fyrir matvanda, sem ég hef komið mér upp til að bregðast við þeirri staðreynd að ég á þrjú börn með afar ólíkan matarsmekk. Stundum er lausnin einfaldlega að setja innihaldsefnin á borðið og leyfa svöngum að púsla þeim saman eftir smekk.

Innihald

3 kjúklingabringur, skornar í þunnar sneiðar.

2 msk. BBQ-grillolía

5 msk sæt BBQ-sósa

2 mangó, skorin í litla bita

1 paprika, skorin í litla bita

1 agúrka, skorin í litla bita

4-6 tómatar, skornir í bita

1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar

1 poki klettasalat

1 krukka fetaostur

Nachos-flögur eftir smekk

Aðferð

Setjið grillolíuna á pönnu og hitið. Steikið kjúklingasneiðarnar á pönnunni og bætið BBQ-sósunni við. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn skal setja hann ásamt klettasalatinu og mangóinu í stóra salatskál. Þetta er hinn óumdeilanlegi kjarni salatsins, sem er undanskilinn öllum samningaviðræðum.

Setjið paprikuna, gúrkuna, tómatana og rauðlaukinn í litlar skálar og raðið þeim snyrtilega í kringum stóru salatskálina. Fetaostskrukkuna skal staðsetja sunnan við skálarnar; nachos-pokann fyrir norðan. Matargestir raða svo innihaldsefnum úr skálunum út í salat-kjarnann sinn eftir smekk, og þannig sparast kveinstafir, rökræður og deilur út frá ólíkum matarsmekk og skoðunum. Verði ykkur að góðu!

Ég skora á góðvin minn Orra Þrastarson, matgæðing og eldhúskúnstner með meiru, að taka við keflinu í næsta innslagi Matgæðingsins. Ég er þess fullviss að lesendur verði ekki sviknir af listum hans yfir pottunum.

Nýjar fréttir