2.9 C
Selfoss

Hæstiréttur staðfestir ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun

Vinsælast

Hæstiréttur hefur nú staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli er varðar Hvammsvirkjun. Þar með er virkjunarleyfi Landsvirkjunar, sem Orkustofnun veitti vegna fyrirhugaðrar virkjunar, ekki lengur í gildi.

Þetta herma heimildir mbl.is.

Héraðsdómur felldi leyfið úr gildi í janúar síðastliðnum og nú hefur Hæstiréttur staðfest þá niðurstöðu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, lýsti þeirri skoðun að dómurinn gæti haft víðtækar afleiðingar og torveldað alla nýja vatnsaflsvirkjun hér á landi.

Ágreiningur um heimild til breytinga á vatnshlotum

Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi Hvammsvirkjunar í áratugi og stóð til að hún yrði áttunda virkjunin á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Öll tilskilin leyfi lágu fyrir árið 2024 og stefnt var að því að virkjunin tæki til starfa árið 2029.

Óvissa skapaðist þó um framtíð verkefnisins eftir að héraðsdómur ógilti leyfið. Ástæðan var sú að samkvæmt dóminum hafði Umhverfisstofnun ekki heimild til að samþykkja breytingar á vatnshlotum vegna virkjana, í ljósi innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins sem lögfest var árið 2022. Sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.

Heim­ild til breyt­ing­ar á vatns­hloti, út­gef­in af Um­hverf­is­stofn­un, hef­ur verið for­senda þess að Orku­stofn­un geti gefið út virkj­un­ar­leyfi. Um­hverf­is- og Orku­stofn­un starfar í dag und­ir sama þaki eft­ir að stofn­an­irn­ar voru sam­einaðar í upp­hafi árs.

Héraðsdómur taldi löggjafann ekki hafa kveðið nægilega skýrt á um breytingar á vatnshlotum í lögunum, og þar með væru þær ólögmætar.

Til að bregðast við ástandinu lagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fram frumvarp í janúar síðastliðnum sem ætlað var að eyða óvissunni um Hvammsvirkjun. Alþingi samþykkti frumvarpið 16. júní síðastliðinn með einróma stuðningi viðstaddra þingmanna.

Nýjar fréttir