Afi & ég er skartgripafyrirtæki sem sérhæfir sig í að smíða skart úr gamalli íslenskri mynt. Árni Veigar Thorarensen og Gunnar Th. Gunnarsson, afi hans, stofnuðu fyrirtækið saman árið 2017.
Afi átti hugmyndina
Árni Veigar segir í samtali við Dagskrána að áhugi hans á hönnun hafi byrjað þegar hann var ungur. „Ég var mikið að föndra og búa eitthvað til. En síðan tók áhuginn á skartgripasmíðinni ekki við fyrr en afi kemur til mín með hugmynd um að búa til skartgripi úr gamalli íslenskri mynt.“
Gunnar, afi hans Árna, hefur safnað mynt frá árinu 1966 og datt í hug að hann gæti gert eitthvað sniðugt með hana seinna meir.
„Rúmum 50 árum seinna þegar afi er að flytja þá finnur hann poka með allri myntinni sem hann hafði safnað og hugmyndin um að smíða úr henni skartgripi kviknar. Hann kemur til mín með hugmyndina og við byrjum á því að fara á silfursmíðanámskeið til að læra grunninn í skartgripagerð og síðan var ekki aftur snúið,“ segir Árni.
Hvorugir eru lærðir gullsmiðir en hafa báðir mikinn áhuga á faginu.
„Afi vann í banka í mörg ár en hefur einnig alltaf haft áhuga á að skapa og búa til það sem honum dettur í hug. Árið 1981 var gerð myntbreyting þar sem felld voru brott tvö núll af íslensku krónunni og ný mynt tekin upp, þannig að gamlar 100 krónur urðu að einni nýrri krónu sem við notum í dag,“ tekur Árni fram.
Nóg til af gamalli mynt
Árni segir að þá skorti ekki mynt og nóg sé til af henni á Íslandi. „Afi átti upprunalega einn lítinn poka með blöndu af alls konar gamalli íslenskri mynt sem kom okkur af stað. Síðan við byrjuðum eru margir búnir að hafa samband og gefa okkur mynt sem að leynist heima hjá fólki og safnar ryki. Þannig það er til nóg af mynt þarna úti, en sum mynt er sjaldgæfari en önnur.“
Ermahnappar vinsælastir
Afi & ég smíða aðallega ermahnappa, hringa, bindisnælur og eyrnalokka og eru allar vörurnar gerðar úr íslensku myntinni með það að markmiði að gefa henni nýtt líf. „En festingar sem að við notum á t.d. ermahnappana og bindisnælurnar eru ekki gerðar úr mynt, enn þá,“ tekur Árni fram. „Einnig höfum við smíðað trúlofunar- og giftingarhringa ásamt því að hafa smíðað tölur í íslenska þjóðbúninga. Við sérsmíðum einnig skart fyrir hatta og bólóbindi,“ bætir hann við og segir að ermahnapparnir séu vinsælasta varan.
Árna finnst skemmtilegast að smíða bindisnælurnar þar sem það sé mesta smíðin. Hann segir að afa sínum finnist gaman að smíða allar hefðbundnu vörurnar en að hann hafi mest gaman af því smíða eitthvað nýtt. Hann sér um vöruþróun fyrirtækisins.
Vinsælt í jóla- og útskriftargjöf
Árni segir skartgripi frá Afa & ég vera fyrir alla en að það sé áberandi hópur sem versli við þá. „Það er fólk sem að man eftir gömlu myntinni og notaði hana á sínum tíma, fyrir 1981.“
Skartgripirnir eru vinsælir í jóla- og útskriftargjafir. „Vinsælt þykir að velja skartgrip með þýðingarmiklu ártali fyrir viðkomandi, á allri mynt er ártal frá því myntin var slegin,“ segir Árni.
Hægt er að panta skartgripi frá Afi & ég í gegnum Facebook-síðu þeirra Afi og ég- Skartgripir úr gamalli íslenskri mynt eða í gegnum afiogeg@gmail.com. Þeir senda með pósti um allt land. Einnig er hægt að versla suma skartgripi frá þeim í Sjafnarblóm á Selfossi og í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar á Laugarveginum.